Innlent

Einhleypir karlar skulda mest

Alls fengu 823 fjölskyldur umsóknir sínar vegna greiðsluerfiðleika afgreiddar á síðasta ári hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, að því er fram kemur í ársskýrslu hennar fyrir árið 2003. Þetta eru heldur færri umsóknir en árið áður, en þá voru þær 835. Á árinu 2001 voru þær hins vegar miklum mun færri, eða 667. Stærstur hluti viðskiptavina Ráðgjafarstofunnar voru einstæðar mæður, eða þriðji hver umsækjandi. Þá fjölgaði einhleypum körlum og konum milli ára. Eru einhleypir karlar með mestu vanskilin, eða að meðaltali um 2,7 milljónir króna. Heildarskuldir þeirra voru að meðaltali 5,6 milljónir króna. Þar vega hvað þyngst meðlags- og skattaskuldir. Hjón með börn eru hins vegar með hæstu heildarskuldirnar, eða að meðaltali ríflega 14 milljónir. Vanskil þeirra voru að meðaltali 3,2 milljónir króna. Barnlaus hjón skulduðu að meðaltali 10,4 milljónir og voru með vanskil upp á 2,7 milljónir. Tæp 35% voru á aldrinum 31-40 ára, en næstfjölmennasti aldurshópurinn var 21-30 ára. Meðalaldur var 38 ár og með 168.000 krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði. Skuldir umfram eignir voru að meðaltali 3,3 milljónir króna. Fasteignaveðlán voru langstærsti hluti heildarskulda þeirra sem leituðu til Ráðgjafarstofu, eða rúm 58%. Næststærsti liðurinn voru önnur lán með persónuábyrgðum eða 27,2%. Skuldir vegna námslána voru 4,8% af heildarskuldunum. Þegar litið er til hlutfallslegrar skiptingar vanskila eftir tegund árið 2003 skáru tvær tegundir skulda sig úr. Annars vegar lán með persónuábyrgðum sem voru ríflega 30% af heildarvanskilunum. Ógreidd opinber gjöld komu næst í röðinni, en þau voru 27,8% af heildarvanskilum. Langalgengustu ástæður greiðsluvanda þeirra sem leituðu til Ráðgjafarstofunnar eru atvinnuleysi, tekjuminnkun og veikindi. Langflestir þeirra komu af höfuðborgarsvæðinu, eða 78,2%. það er þó heldur lægra hlutfall en á síðasta ári, en þá var 81% viðskiptavinanna af því landssvæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×