Erlent

Eftirlaunin í hættu

Breska eftirlaunakerfið er ekki í takt við raunveruleikann og hefur í för með sér að margir kunna að búa við fátækt þegar þeir fara á eftirlaun á næstu áratugum. Þetta er niðurstaða nefndar á vegum breskra stjórnvalda sem hefur kannað eftirlaunakerfið og framtíð breskra launþega þegar þeir fara á eftirlaun. "Meira en níu milljónir vinnandi manna horfa fram á eftirlaun sem þeim kunna að þykja óviðunandi nema þeir séu reiðubúnir að spara meira eða hætta störfum miklu síðar en foreldrar þeirra," sagði Aldair Turner, formaður eftirlaunanefndarinnar. Turner sagði að síðustu tuttugu árin hefðu stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar lifað í blekkingu þegar kæmi að því að búa sig undir að fjölmennar kynslóðir fari á eftirlaun. "Nú er svo komið að við verðum að horfast í augun við þá blekkingu og hegða okkur í takt við raunveruleikann," sagði Turner. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði að íhuga þyrfti hvort rétt væri að fólk færi á eftirlaun við 60 eða 65 ára aldur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×