Erlent

Fer Ivan til Florida?

Ívan sneyddi snyrtilega hjá Kúbu í nótt, íbúum og yfirvöldum til mikils léttis. Bylurinn er gríðarkraftmikill og því hefði yfirreið hans getað valdið miklum usla. Mikið rok og rigning gerðu Kúbverjum þrátt fyrir þetta lífið leitt og geysiháar öldur gengu langt inn á land. Vindhraði Ívans var um 250 kílómetrarar á klukkustund í gær, eða um sjötíu metrar á sekúndu. Það þýðir að þá var hann kröftugur fellibylur í fimmta flokki á hinum svokallaða Saffir-Simpson mælikvarða. Í Mexíkó urðu menn einnig varir við Ívan, þó að krafturinn þar hafi verið mun minni en í fyrstu var óttast. Þúsundir flýðu þó undan veðurofsanum enda hefur Ívan valdið miklum skemmdum og mannfalli á ferð sinni um Karíbahafið. Þessar myndir frá Cayman-eyjum sína glögglega þann mikla kraft sem þar reið yfir. Þó að nokkuð hafi dregið úr krafti Ívans er hann ennþá slík ógn að yfirvöld í Bandaríkjunum, frá Flórída til Louisiana, hafa skipað hátt í milljón manna að yfirgefa heimili sín eða búa sig undir ofsaveður. Nú virðist sem svæðið í kringum New Orleans sé í hættu, og biðja yfirvöld þar þess að dregið hafi úr Ívani áður en hann heldur á land þar í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×