Menning

Baróninn haldinn norðurhjaradellu

Franskur barón kom til Íslands árið 1898 til þess að auðgast. Hann var haldinn norðurhjaradellu og taldi landið tilvalið til þess að hefja nýtt líf. En háleitir draumar hans og íslenskur veruleiki áttu ekki samleið, eins og fram kemur í heimildaskáldsögunni Baróninn eftir Þórarin Eldjárn.

Baróninn og aðalsmaðurinn, Charles Gauldrée Boilleau, var tónlistarmaður og mikill heimsborgari sem ákvað að koma til Íslands og reyna að finna sjálfan sig í íslenskri sveit, órafjarri umbrotum heimsmenningarinnar. Skömmu eftir að hann kom til landsins árið 1898 keypti hann jörðina Hvítárvelli í Borgarfirði og hóf þar búskap, og hafa Íslendingar gjarnan kallað hann baróninn á Hvítárvöllum. En hann kom líka við sögu í Reykjavík því gatan Barónsstígur heitir eftir honum.

Fyrir fimmtán árum rakst Þórarinn Eldjárn rithöfundur á sögu barónsins í skráðum frásögnum og þótti honum saga hans vera einstaklega heillandi þar sem andstæðurnar væru miklar. Og því meira sem hann las um hann, því dularfyllri varð hann. „Það auðvitað kallar á skáldskap þannig að þetta er ekki sagnfræðiverk heldur skáldsaga,“ segir Þórarinn. 

Með baróninum í för til Íslands var 18 ára maður og sögðust þeir vera frændur. Það reyndist ekki rétt og spruttu ýmsar sögur um samband þeirra.

Í sögu Þórarins kemur fram að stórbrotnar hugmyndir barónsins hafi ekki fallið í frjóan jarðveg hér á landi. Hann var líklega haldinn norðurhjaradellu að sögn höfundarins sem segir það hafa verið þekkt fyrirbæri á meðal heldri manna á þessum tíma sem höfðu ferðast víða.

„Ég held að hann hafi séð í landinu bæði einhvern hreinleika og möguleika á að byrja upp á nýtt því hann var ábyggilega kominn í einhvers konar þrot í sínu lífi og starfi,“ segir Þórarinn sem telur að baróninn hafi ekki náð að fóta sig hér á landi vegna þess hve þjóðfélagið var frumstætt og hugmyndir hans því ekki gengið upp. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×