Erlent

Einstakt tækifæri

"Ég held að það sé sanngjarnt að segja að við eigum góða möguleika á að stofna palestínskt ríki og ég ætla að nota næstu fjögur árin til að eyða pólitískri inneign Bandaríkjanna í slíkt ríki. Ég tel það í þágu heimsins að sannarlega frjálst ríki þróist í Palestínu," sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti eftir fund með Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Bush sagði að heimurinn stæði frammi fyrir miklu tækifæri til að koma á friði í Mið-Austurlöndum á næstu fjórum árum og að hann ætlaði að gera sitt til að nýta það tækifæri til fullnustu. Til þess að friður kæmist á yrðu allir að vinna saman, Ísraelar, Palestínumenn og alþjóðasamfélagið. "Ég held að það sé engin önnur leið til að koma á varanlegum friði en að við vinnum öll saman að því að byggja upp þá innviði sem eru nauðsynlegir fyrir ríkismyndun samfélags sem byggir á réttlæti, málfrelsi, frjálsum kosningum og rétti fólks til að tjá sig að vild," sagði Bush. "Niðurstaðan verður að vera sú að hlið við hlið verða Ísraelsríki, sem býr við öryggi, og palestínskt ríki sem á sér framtíð, tvö lýðræðisleg ríki hlið við hlið," sagði Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×