Erlent

Óvissa í Palestínu

Undirbúningur fyrir útför Jassers Arafats er þegar hafinn, þótt hann sé ekki enn fallinn frá. Ringulreið og óvissa ríkir í Palestínu. Ákveðið hefur verið að Rawhi Fattouh, forseti palestínska þingsins, taki tímabundið við embætti forseta heimastjórnarinnar þegar Arafat fellur frá. Undirbúningur fyrir útför Arafats er þegar hafinn og hefur verið samþykkt að hún fari fram í Kaíró. Palestínumenn vilja að leiðtoginn verði grafinn við höfuðstöðvar sínar á Vesturbakkanum en Ísraelar eru á móti því. Shaul Goldstein hjá ísraelska þinginu segir Arafat vera mesta hryðjuverkamann þessa áratugar ásamt Osama bin Laden. Síðustu fjörutíu árin hafi hann myrt þúsundir gyðinga um allan heim og sé svarinn óvinur Íraelsríkis. „Arafat er glæpamaður og það ætti að jarða hann án viðhafnar einhvers staðar langt frá Ísrael,“      Fjöldi Palestínumanna kom saman við höfuðstöðvar Arafats í Ramallah á Vesturbakkanum til að undirstrika stuðning sinn við forsetann en almenningur er reiður og veit ekki hvort Arafat er lífs eða liðinn. Nabil Shaath, utanríkisráðherra heimastjórnar Palestínu, greindi frá því síðdegis að lifur og nýru Arafats störfuðu ekki lengur. Taisser Bayoud Tamimi, íslamskur æðstiklerkur heimastjórnarinnar, sem vitjaði Arafats í París, sagði að svo lengi sem Arafat væri á lífi fengi hann nauðsynlega læknismeðferð. „Það kemur ekki til greina að taka lífbúnaðinn úr sambandi. Slíkt er bannað í íslamstrú og öllum öðrum trúarbrögðum. Þesari ákvörðun verður ekki breytt,“ sagði klerkurinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×