Innlent

Virðing Íslands að veði

Hætta er á að ríkisstjórnin fái ávítur frá Alþjóðavinnumálastofnuninni setji hún lög sem kveða ekki á um betri rétt en felld miðlunartillaga, segir Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttalögmaður. Stjórnvöld voru síðast ávítt af stofnuninni í júní vegna lagasetningar á verkfall sjómanna árið 2001. Lára segir að yrðu lög sett á verkfall kennara og deilan sett í gerðardóm, sem hefði úr meiru fé að spila en nú hafi boðist, mætti forða því að Ísland lenti á svörtum lista Alþjóðavinnumálastofnunar: "Það er litið til þess ef Ísland er ítrekað að brjóta þessi grundvallarmannréttindi sem samningsrétturinn er." Ingvar Sverrisson, lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, segir að þegar stjórnvöld hafi sett lög á verkfall sjómanna hafi niðurstaða stofnunarinnar verið að stjórnvöld hafi farið offari með lagasetningunni. Lára segir hvorki sektir né refsingar viðurlög Alþjóðavinnumálastofnunarinnar en athugasemdir hennar geti verið Íslandi erfiðar: "Það er ógaman að vera í alþjóðasamstarfi og hluti af Sameinuðu þjóðunum sem Alþjóðavinnumálstofnunin tilheyrir og fá athugasemdir vegna framgöngu stjórnvalda í tengslum við verkföll." Ingvar segir umsagnir stofnunarinnar fyrst og fremst spurningu um virðingu viðkomandi aðildarríkis og stöðu þess í samfélagi annarra ríkja sem aðild eiga að stofnuninni: "Það er mjög slæmt að Ísland í þessu tiltekna máli sjómanna var sett í sama flokk og ríki sem við berum okkur helst ekki saman við, eins og sum ríki í Suður-Ameríku þar sem réttindi verkafólks og stéttarfélaga eru fótum troðin." Ingvar segir að þrátt fyrir ávítur í málum sjómanna sé almenn sátt um fyrirkomulag samninga á íslenskum vinnumarkaði. "Það ríkir almennt séð friður, en það eru alltaf einstaka mál sem koma upp, eins og með kennara, þar sem uppsöfnuð óánægja og reiði ríkir og menn fara út í verkfallsaðgerðir. Það þarf ekki að vera áfellisdómur yfir kerfinu í heild sinni."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×