Erlent

Hjálparvana fórnarlömb goðsögn

Hjálparvana fórnarlömb á hamfarasvæðum er goðsögn, samkvæmt árbók Alþjóðasambands Rauða kross félaga um hjálparstarf og hamfarir. Þrisvar sinnum fleiri biðu bana vegna hamfara á síðasta ári en árið þar á undan. Yfirmaður samskiptadeildar Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans er þessa stundina að kynna árbókina á fundi formanna og framkvæmdastjóra norrænna Rauða kross félaga, sem haldinn er í Reykjavík. Þetta er í tólfta sinn sem árbókin er gefin út en henni er ætlað að gefa yfirlit yfir viðfangsefni hjálparstofnana auk gagnrýninnar umfjöllunar um alþjóðlegt hjálparstarf. Þar kemur fram að á síðasta ári urðu 255 milljónir manna fyrir skakkaföllum vegna hamfara og tæplega 77 þúsund týndu lífi. Það er þrisvar sinnum fleiri en árið 2002. Í árbókinni nú er reynt að eyða goðsögninni um hið hjálparvana fórnarlamb og bent á að um allan heim séu það yfirleitt íbúar á hamfarasvæðunum sem sjálfir bregðast fyrstir við vá. Sem dæmi er nefnt að eftir jarðskjálftann mikla í Íran í desember sl. hafi  alþjóðlegar björgunarsveitir náð að bjarga 32 en sjálfboðaliðar íranska Rauða hálfmánans hafi hins vegar bjargað 160 manns. Það sé því við nánari skoðun mikilvægt að gera ráð fyrir bjargráðum fólks á staðnum þar sem stórslys eða hamfarir hafa orðið og hægt sé að gera hjálparstarfs skilvirkara. Þá eigi að forðast að draga úr frumkvæði og getu heimamanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×