Erlent

Barroso dró tillöguna til baka

Romano Prodi og stjórn hans mun verða áfram við stjórnvölinn innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eftir að Jose Manuel Barroso, væntanlegur formaður framkvæmdastjórnarinnar, tók til baka tillögu sína um skipun 25 manna stjórnar sambandsins nú fyrir stundu.  Mikil andstaða þingmanna var frá öllum löndum og úr öllum fylkingum við tillöguna og stefndi í að hún yrði felld vegna mikilla deilna og nánast upplausnar á Evrópuþinginu í gær um skipan Ítalans Roccos Buttigliones í embætti innanríkis- og dómsmálastjóra sambandsins. Þingheimi Evrópuþingsins dugir ekki að fella hann einan því annað hvort verður framkvæmdastjórnin samþykkt í heild eða felld í heild. Andstæðingar Buttigliones, sem líklega er um það bil helmingur 732 þingmanna Evrópuþingsins, segja fordóma hans óþolandi og til þess fallna að kveikja einskonar borgarastyrjöld innan sambandsins. Buttiglione segir meðal annars að samkynhneigð sé synd og hefur auk þess andúð á einstæðum mæðrum og útivinnandi húsmæðrum. Leiðtogar á borð við Schröder, kanslara Þýskalands, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, höfðu þó lagt hart að þingmönnum að veita Buttiglione brautargengi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×