Erlent

Útlit ekki aðalmálið hjá leiðtogum

Það er útbreiddur misskilningur að útlit og útgeislun stjórnmálaleiðtoga skipti öllu máli þegar kemur að kjörfylgi. Rannsóknir sýna að það eru málefnin og stjórnmálaflokkurinn sem ræður því hvað fólk kýs. Það hefur lengi verið viðtekin viska að fjölmiðlar, einkum sjónvarp, hafi umbylt allri stjórnmálaumræðu og þá sérstaklega hlutverki stjórnmálaleiðtogans. Svo er nú aldeilis ekki segir Ólafur Þ. Harðarsson, prófessor í stjórnmálafræði, sem var einn þeirra fjölmörgu sem kynntu niðurstöður rannsókna sinna á nýafstöðnu þingi um rannsóknir í félags- og hugvísindum í Háskóla Íslands. Ólafur segir að sumir haldi að kosningar snúist bara um hvernig frambjóðandinn líti út; það skipti engu máli hvað hann hafi að segja, hvaða flokki hann er í og þar fram eftir götunum. Nánast allar rannsóknarniðurstöður benda til þess að þetta sé mjög skekkt mynd. Flokkar, málefni og þess háttar hlutir skipta áfram mjög miklu máli. Ólafi sýnist að óbeint hlutverk leiðtogans sé að halda flokki sínum saman og sjá til þess að hann standi sig í verkum sínum þegar hann er í ríkisstjórn. Það skipti miklu meira meira máli en það hvort útlit leiðtogans sé heillandi, röddin góð o.s.frv. Ólafur segir að í Bandaríkjunum skipti persónuþættir stjórnmálamanna samt yfirleitt meira máli en í evrópsku kerfunum þar sem stjórnmálaflokkar og málefni vegi meira á metunum. Hann efast samt um að John Kerry tapi kosningunum í haust vegna þess að hann sé tréhestur, eins og sumir hafi talað um.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×