Erlent

49 írakskir hermenn aflífaðir

Lík fjörutíu og níu írakskra hermanna hafa fundist í Írak um helgina. Talið er að skæruliðar hafi ráðist á þá þar sem þeir voru á leið heim í frí, og tekið þá af lífi. Þrjátíu og sjö lík fundust í gær og tólf til viðbótar í morgun suður af borginni Bakúba. Fjögur fórnarlambanna voru bílstjórar og fjörutíu og fjórir voru í nýja írakska hernum og voru í þjálfun í Kirkush  Lík mannana fundust á afskekktum vegarkafla og virðist sem skæruliðar hafi gert hermönnunum þar launsátur. Hermennirnir voru á leið í leyfi heima og voru því ekki í herbúningum heldur klæddir sem óbreyttir borgarar. Svo virðist sem skæruliðar hafi látið þá leggjast á jörðina og svo skotið. Líkum þeirra var síðan raðað snyrtilega í fjórar raðir, tólf hermenn í hverri röð. Brunnar rústir smárúta, sem fluttu hermennina heim á leið, fundust skammt frá. Árásin á hermennina er mikið áfall fyrir íröksk yfirvöld sem leggja áherslu á að byggja upp eigin her og öryggissveitir. Þessar sveitir og lögregla hafa verið vinsælt skotmark skæruliða og hryðjuverkamanna sem líta á hermenn og lögreglumenn sem landráðamenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×