Erlent

Clinton næsti framkvæmdastjóri Sþ?

Verður Bill Clinton framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar Kofi Annan lætur af embættinu árið 2006? Clinton er sagður áhugasamur en George Bush gæti reynst honum þrándur í götu. Þó að það hafi ekki farið hátt hafa lengi verið á kreiki sögusagnir þess efnis að Bill Clinton hefði áhuga á starfi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Og nú hefur fréttastofan UPI eftir heimildarmönnum að Clinton sé í raun og veru spenntur fyrir embættinu. Talið er víst að hann hlyti yfirgnæfandi stuðning, væri hann í framboði, bæði frá Evrópu og ríkjum þriðja heimsins. Óstaðfestar fregnir herma að Þjóðverjar, Frakkar, Bretar, Írar, Nýsjálendingar, Marokkó og Egyptaland hafi þegar lýst yfir stuðningi við hugmyndir um framboð Clintons. Hermt er að Rússar hafi ekkert á móti Clinton og að Kínverjar séu beinlínis spenntir fyrir honum. Tæki hann við embættinu þykir það jafnframt til þess fallið að vekja mun meiri athygli á starfi samtakanna um víða veröld. Fram til þessa hafa framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna komið frá smærri þjóðum og ekki stórveldum - enginn Bandaríkjamaður hefur til að mynda gengt embættinu. En Clinton gæti náð eyrum almennings í því ríki sem mest völd hefur innan Sameinuðu þjóðanna - þ.e.a.s. í Bandaríkjunum. Eina vandamálið er að bandarísk stjórnvöld yrðu að tilnefna Clinton og verði George Bush endurkjörinn 2. nóvember þykir fremur ólíklegt að hann sjái sér hag í því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×