Erlent

Mest spilling í olíuríkjum

Mikið samhengi er á milli olíuauðs og spillingar í viðkomandi löndum að sögn Peters Eigen, formanns Transparency International, sem hefur tekið saman árlegan lista sinn um hversu mikil spillingin er í 146 löndum heims. "Líkt og spillingarvísitalan 2004 sýnir eru olíurík ríki á borð við Angóla, Aserbaídsjan, Tsjad, Ekvador, Indónesíu, Íran, Írak, Kasakstan, Líbíu, Nígeríu, Rússland, Súdan, Venesúela og Jemen öll með afar lágt skor," sagði Eigen. Þau ríki sem fá lægsta einkunn eru löndin þar sem mest spilling ríkir. Eigen segir þessi ríki búa við þann vanda að háar fjárhæðir renni í vasa vestrænna stjórnenda olíufyrirtækja, milliliða og embættismanna í löndunum sjálfum. Hann hvatti olíufyrirtæki til að greina opinberlega frá öllum greiðslum til ríkisstjórna og ríkisrekinna olíufélaga í von um að draga úr spillingu. Meira en tvö af hverjum þremur ríkjum, 106 af 146, fengu falleinkunn eða innan við fimm af tíu mögulegum. Sjö ríki fá meira en níu í einkunn og teljast því þau ríki sem búast við minnsta spillingu. Þau lönd eru Finnland, Nýja-Sjáland, Danmörk, Ísland, Singapúr, Svíþjóð og Sviss. Minnst spilling Finnland Nýja-Sjáland Danmörk Ísland Singapúr Svíþjóð Sviss Spilltustu ríki heims Bangladess Haítí Nígería Tsjad Myanmar Aserbaídsjan Paragvæ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×