Erlent

Færri látast í stríðsátökum

Enda þótt styrjaldir séu stöðugt í heimsfréttunum þá er það staðreynd að stríðsátökum fer fækkandi og dregið hefur úr mannfalli af þeirra völdum. Þetta er niðurstaða sérfræðinga Alþjóðafriðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi (SIPRI). SIPRI skilgreinir stríðsátök sem ófrið þar sem meira en þúsund manns láta lífið á ári. Nítján slík svæði voru í heiminum árið 2003 og hefur ekki verið barist á jafn fáum svæðum frá lokum síðari heimsstyrjaldar, ef árið 1997 er undanskilið. Einungis tvö af þessum stríðum geisuðu á milli ríkja, á hinum stöðunum var um borgarastyrjöld að ræða. Ófriði lauk í Sómalíu, Angóla og Rwanda á síðasta ári en hins vegar braust út stríð í Írak, Líberíu og í Darfur-héraði í Súdan. Fræðimenn hafa jafnframt fullyrt að í fyrra hafi 20.000 manns látist vegna stríðsátaka og 15.000 árið þar áður. Þótt þessar tölur séu háar þá hefur mannfall af völdum stríðs ekki verið jafn lítið í marga áratugi. Á tíunda áratug síðustu aldar féllu á bilinu 40.000-100.000 manns árlega og á tímum kalda stríðsins var mannfallið jafnvel enn meira.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×