Erlent

Bólusetning við malaríusmiti

Vísindamenn telja sig í fyrsta sinn geta bjargað börnum frá malaríusmiti eða dauða með bólusetningu. Þótt enn sé langt í að menn telji baráttunni gegn þessum skæða sjúkdómi lokið, segja sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar skrefið stórt. Meira en milljón manna láta lífið af völdum malaríu ár hvert, þar af um sjö hundruð þúsund börn. Bóluefnið sem hér er talið valda straumhvörfum hefur verið prófað á þúsundum barna í Mósambík. Ekki er hægt að tala um fullkominn árangur því rannsóknir sýna að einungis tókst að koma í veg fyrir að börnin smituðust í þrjátíu prósent tilfella. Hins vegar er talið að bóluefnið hafi valdið því að sjúkdómurinn varð ekki lífshættulegur hjá 58% þeirra sem tóku þátt í tilraununum. Besti árangur þessa bóluefnis er hjá börnum þar sem efnið er talið hafa langvarandi áhrif. Í tilraunum með sama bóluefni á fullorðnum í Ghana fyrir nokkrum árum kom í ljós að vörn gegn smiti fékkst í um 35% tilfella en að bóluefnið hætti að virka eftir um það bil tvo mánuði. Malaría er borin á milli manna með moskítóflugum, og finnst sjúkdómurinn í níutíu löndum. Sífellt eru að finnast afbrigði af sjúkdómnum sem eru ónæm fyrir þekktum lyfjum. Bill Gates og Melinda eiginkona hans styrkja í gegnum stofnun í þeirra nafni tilraunir fimmtán hópa vísindamanna á bóluefnum. Fjallað verður ítarlega um niðurstöður þeirrar rannsóknar sem hér um ræðir í breska læknatímaritinu Lancet sem kemur út á morgun. Sérfræðingar í smitsjúkdómum fagna margir hverjir tíðindunum en vara líka við of mikilli bjartsýni. Enn sé mikilvægt að fólk forðist moskítóbit og ekki megi gefast upp í leitinni að fullnaðarsigri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×