Erlent

Kalla eftir aðgerðum SÞ

Frjálsu félagasamtökin í Palestínu (PNGO) hafa sent frá sér ákall til Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins um að skerast í leikinn og stöðva árásir Ísraelshers á palestínsku þjóðina. Árásir hafa staðið á norðanverðu Gaza-svæðinu síðan 28. september síðastliðinn. Samtökin segja árásirnar hafa farið stigvaxandi og snúi bæði að almenningi og eignum fólks með þungavopnum, bæði skriðdrekum og herflugvélum. "Fyrstu ellefu daga árásanna, sem nefndar hafa verið "Dagar yfirbótar" (e. Days of Penitence) hafa 115 Palestínumenn verið drepnir, þar á meðal 31 barn. Að minnsta kosti 75 hús verið eyðilögð og um 400 þúsund fermetrar af ræktarlandi lagðir í auðn af Ísraelsher," segja samtökin og benda á að árásirnar hafi að mestu beinst að Jabaliya-flóttamannabúðunum, en þar sé einhver þéttasta byggð í heimi. "Þúsundir palestínskra íbúa þjást vegna íþyngjandi aðgerða Ísraelshers sem þýða að skortur er hvort tveggja á mat og vatni, auk þess sem lokað er reglulega fyrir rafmagn," segja samtökin sem vilja að Sameinuðu þjóðirnar geri út sendinefnd sem gripið geti til aðgerða sem ýti undir virðingu Ísraela við alþjóðalög.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×