Erlent

Ekker saknæmt við dauðsfall

Krufning hefur leitt í ljós að Christer Pettersson, meintur morðingi Olofs Palme, lést af völdum höfuðáverka sem hann hlaut er hann fékk flog að lokinni mikilli áfengisdrykkju og datt á höfuðið. Pettersson lést á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi 29. september en þá voru tvær vikur liðnar frá því að hann var fluttur þangað með alvarlega höfuðáverka. Niðurstöður krufningar þykja útiloka að honum hafi verið ráðinn bani en Petterssen hafði lengi átt við flogaveiki að stríða. Endanleg niðurstaða krufningar mun liggja fyrir innan fárra vikna. Pettersson var sakfelldur fyrir morðið á Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra, í undirrétti en hann var síðar sýknaður vegna skorts á sönnunargögnum. Palme var skotinn til bana í miðbæ Stokkhólms 28. febrúar 1986. Ekkja Palme, Lisbet, bar kennsl á Pettersson sem skotmanninn fyrir dómi. Morðvopnið hefur hins vegar aldrei fundist og málið telst enn óupplýst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×