Erlent

Samskiptin versna ef Bush vinnur

Hætt er við því að samskiptin milli Evrópu og Bandaríkjanna versni enn, verði Bush endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Á hinn bóginn myndi kosning Kerrys geta bætt andrúmsloftið til muna. Þetta segir franskur blaðamaður og háskólakennari, sem staddur er hér á landi. Jacques Julliard er aðstoðarritstjóri Le Nouvel Observateur, rithöfundur og háskólaprófessor og er kominn hingað til lands úr fyrirlestrarferð um Bandaríkin þar sem hann hefur rýnt í samskipti Bandaríkjanna og Evrópu í kjölfar Íraksstríðsins. Hann segir sífellt meiri kreppu skapast í samskiptunum. Bandaríkin telji að Evrópa sé óhæf til að leysa vanda, en Evrópa telji Bandaríkin vera komin í vandræði sem þeir geti ekki komið sér úr. Jaques segir úrslit kosninganna í Bandaríkjunum geta ráðið úrslitum um það hvort eitthvað rofnar til í samskiptunum yfir Atlantsála. Hann segir möguleikana tvo: Annað hvort að Bush verði endurkjörinn, ástandið versni og Evrópa fylgi honum ekki eftir, enda sé hann bæði óvinsæll og þrjóskur, eða að Kerry verði kjörinn og það verði mögulega nálgun og samvinna, sem nota megi til að leysa deiluna í Írak, enda sé Kerry mjög vinsæll í Evrópu. Bæði með hliðsjón af heilbrigðri skynsemi og kristilegri trú megi ekki grípa til ofbeldisfullra hefndaraðgerða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×