Erlent

11 al-Qaeda liðar hafa horfið

Að minnsta kosti ellefu grunaðir al-Qaida liðar hafa horfið meðan þeir hafa verið í varðhaldi í Bandaríkjunum, og sumir hafa verið pyntaðir, að sögn mannréttindasamtaka. Föngunum er trúlega haldið utan Bandaríkjanna, án þess að Rauði Krossinn eða aðrir geti haft eftirlit með meðferð þeirra, segja mannréttindasamtökin Human Rights Watch. Fangarnir koma meðal annars frá Libýu, Sádi Arabíu, Jemen og Kúvæt. Meðal þeirra er sagður hugmyndafræðingurinn á bak við árásirnar ellefta september, Khalid Shaikh Mohammed. Samtökin segja að sumir fanganna hafi gefið verðmætar upplýsingar fyrir leyniþjónustuna, en aðrir hafi verið pyntaðir. Upplýsingarnar hafa samtökin eftir nafnlausum heimildarmönnum innan ríkisstjórnarinnar. Skýrsluhöfundar viðurkenna að láta verði hryðjuverkamenn svara til saka, en meðferð fanganna megi ekki fela í sér klár brot á alþjóðalögum og sáttmálum um meðferð stríðsfanga. Skýrsluhöfundar segja að nú sé Bandaríkjamenn að nota aðferð í baráttunni gegn hryðjuverkum sem tíðkaðist hjá einræðisherrum á síðustu öld. Bandarísk yfirvöld hafa ekki viljað segja álit sitt á skýrslunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×