Erlent

Uppreisnarmenn afvopnast

Uppreisnarmenn sjía-klerksins Muqtada al-Sadr byrjuðu í gær að láta af hendi vopn samkvæmt samningi sem þeir gerðu við írösk stjórnvöld á sunnudaginn. Búist er við því að uppreisnarmennirnir í Sadr-borg, í norðurhluta Bagdad, muni á næstu fimm dögum láta af hendi fjölda vopna og er vonast til þess að það bindi enda á sex mánaða óöld á svæðinu. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem kom í óvænta heimsókn til Íraks, segir að samkvæmt samkomulaginu muni írösk stjórnvöld láta lausa úr fangelsi liðsmenn sjía-klerksins. Í staðinn láti uppreisnarmennirnir af hendi vopn og fá greiðslu fyrir þau. Þá felist einnig í samkomulaginu að stjórnvöld veiti um 30 milljörðum króna til uppbyggingar í Sadr-borg. Tekið er á móti vopnum við þrjár lögreglustöðvar og hefur þegar nokkur fjöldi vopna verið afhentur yfirvöldum, m.a. tugir sprengjuvarpna, sprengiefni og hríðskotabyssur. Fréttamaður AP varð vitni að því þegar tvítugur maður kom með tvær sprengjuvörpur á eina lögreglustöðina. "Guð hjálpi okkur að hér verði ekki barist meira og að friður verði í Sadr-borg," sagði maðurinn þegar hann afhenti vopin. Rumsfeld fundaði með Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, um kosningarnar í janúar. Hann segir að þrátt fyrir samkomulagið við liðsmenn al-Sadr megi búast við því að ófriður muni aukast víða um landið allt þar til kosningar verða haldnar. Mikilvægt sé hins vegar að allar tímaáætlanir standist og kosningarnar verði haldnar. Verið er að undirbúa viðræður við uppreisnarmenn í Falluja sem búist er við að verði á sömu nótum og viðræðurnar við al-Sadr. Hazem Shaalan, varnarmálaráðherra Íraks, mun funda með forsvarsmönnum uppreisnarmanna í borginni sem hefur verið blóðugur vígvöllur síðan vopnahléi var aflýst í apríl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×