Erlent

Slösuð eftir slag við krókódíl

Sextug kona liggur alvarlega slösuð á sjúkrahúsi í Ástralíu eftir að hafa stokkið á fjögurra metra langan krókódíl til að frelsa mann úr kjafti hans. Maður á fertugsaldri svaf værum svefni í tjaldi ásamt konu sinni á tjaldstæði í Queensland í norður Ástralíu í gær, þegar risakrókódíll réðist inn í tjaldið og dró hann út. Sextug kona varð vitni að þessu, og skipti engum togum að hún stökk á krókódílinn, sem sleppti manninum, réðist á hana í staðinn og dró hana í áttina að vatninu. Árvökull og vopnaður gestur tjaldstæðisins kom þá að og skaut krókódílinn til bana. Konan og maðurinn liggja nú alvarlega slösuð á sjúkrahúsi en ekki í lífshættu. Krókódílum hefur fjölgað mjög á svæðinu síðan veiðibann var sett á og nú er kannað hvort veiðimenn hafi hent afgangsbeitu í vatnið á svæðinu, sem hafi laðað krókódílinn að tjaldstæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×