Erlent

Mesta mannfall í tvö ár

Nær þrjátíu manns létu lífið í bardögum palestínskra vígamanna og ísraelskra hersveita. Ísraelskar hersveitir brutu sér leið langt inn í Jebaliya flóttamannabúðirnar á Gazaströndinni til að ráðast á palestínska vígamenn sem skutu eldflaugum að ísraelskum landnemabyggðum. Flestir þeirra sem létust voru Palestínumenn, í það minnsta 23. Þrír Ísraelar létust, tveir hermenn og ísraelsk kona sem var úti að skokka létust í skotárásum palestínskra vígamanna. Herförin inn í Jebaliya var svar Ísraela við eldflaugaárásum Palestínumanna daginn áður sem kostuðu tvö börn, tveggja og fjögurra ára, lífið. Þetta er í fyrsta skipti frá upphafi uppreisnar Palestínumanna gegn ísraelska hernámsliðinu sem Ísraelar brjóta sér leið svo langt inn í Jebaliyah. Mannfallið er með því mesta á einum degi í átökum Ísraela og Palestínumanna. Ekki hafa fleiri Palestínumenn fallið einn og sama daginn frá því 35 létu lífið í árás Ísraelshers á Vesturbakkanum fyrir rúmum tveimur árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×