Erlent

Helmingur allra karla ákærður

Réttarhöld yfir helmingi allra karla á Pitcairn-eyju hófust í dag. Mennirnir eru ákærðir fyrir nauðganir. Alls sitja sjö karlmenn á sakamannabekknum en íbúar á Pitcairn-eyju eru 47. Ákærurnar ná 40 ár aftur í tímann og átta konur bera vitni við réttarhöldin. Íbúar Pitcairn-eyju eru afkomendur sjómannanna sem gerðu uppreisn á breska skipinu Bounty seint á 18. öld. Þeir komu níu talsins til eyjarinnar árið 1790 ásamt sex pólynesískum körlum, tólf pólýnesískum konum og einni telpu. Allir 47 íbúar eyjarinnar í dag eru afkomendur þessa fólks. Eyjan, sem er fimm ferkílómetrar og liggur á milli Nýja-Sjálands og Panama, heyrir undir breska ríkið og vegna réttarhaldanna, sem talið er að standi í sex vikur, hafa bresk stjórnvöld þurft að flytja þangað dómara, lögreglu, fangaklefa, réttarþjóna og nokkra blaðamenn. Þrátt fyrir alvarleika ákæranna hafa sumir eyjaskeggja þyngstar áhyggjur af því að verði mennirnir sakfelldir, kunni það að leiða til þess að byggð leggist af á Pitcairn-eyju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×