Erlent

Bush leiðir fyrir fyrstu kappræður

George W. Bush, Bandaríkjaforseti og forsetaefni repúblikana, hefur átta prósentustiga forskot á demókratann John Kerry samkvæmt nýrri skoðanakönnun Pew. Samkvæmt henni fengi Bush 48 prósent atkvæði en Kerry 40 prósent. Fyrstu kappræður Bush og Kerrys fara fram annað kvöld. Að sögn Pew stofnunarinnar gætu kappræðurnar haft meiri áhrif nú en kappræður hafa oft haft í forsetakosningum. Það er vegna þess að enn sé hvorugur frambjóðandinn kominn með óvinnandi forskot og eins gefi kappræðurnar Kerry tækifæri á að kynna sig betur fyrir kjósendum en hann hefur gert til þessa. Samkvæmt könnun Pew ætlar 61 prósent líklegra kjósenda að horfa á kappræðurnar, fyrir fjórum árum var það hlutfall aðeins 43 prósent. Stóru sjónvarpsstöðvarnar í Bandaríkjunum eru allt annað en ánægðar með samkomulag kosningastjóra Bush og Kerrys um form kappræðanna að sögn CNN. Meðal annars eru þær ósáttar við nákvæmar reglur um hvað megi mynda, hvernig megi spyrja og jafnvel hvernig farða eigi frambjóðendurna. Þá gagnrýna þær að aðeins á að hleypa stuðningsmönnum hvors um sig í sjónvarpssal en engum óákveðnum kjósendum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×