Erlent

Réðist með öxi á flugmenn

Litlu mátti muna að norsk farþegaflugvél færist þegar farþegi réðist á tvo flugmenn og einn farþega með exi. Flugmennirnir misstu stjórn á vélinni við árásina enda fleygði maðurinn sér yfir stjórntæki flugvélarinnar. Við það tók vélin dýfu og var aðeins þrjátíu metrum yfir haffletinum þegar flugmennirnir náðu loks að rétta hana af. Flugmennirnir og farþeginn sem varð líka fyrir árásinni meiddust nokkuð en samt tókst flugmönnum að lenda vélinni heilu og höldnu. Flugvélin var á leið frá Narvík til Bodö í Norður-Noregi. Um borð voru tveir flugmenn og sjö farþegar. Maðurinn gekk um borð í vélina með öxi og hníf í tösku og annan hníf í jakkavasa sínum. "Þetta er hræðilegt atvik," sagði Nils Erik Rognli, flugvallarstjóri í Narvík, í viðtali við norskra ríkisútvarpið og benti á að ekkert öryggiseftirlit væri á flugvellinum sem er á undanþágu frá öryggisreglum til áramóta. Axarmaðurinn er alsírskur hælisleitandi sem var nýlega synjað um hæli í Noregi. "Okkur virðist sem hann sé ekki í andlegu jafnvægi en við vitum meira um það þegar læknir hefur rannsakað hann," sagði Tone Vangen, starfandi lögreglustjóri í Bodö í viðtali við Aftenposten. Hún sagði axarmanninn hafa neitað að ræða við lögreglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×