Erlent

Lausnargjald skyggir á gleðina

Sögusagnir um að lausnargjald hafi verið greitt skyggja á gleði Ítala vegna lausnar tveggja þarlendra gísla í Írak. Konurnar störfuðu báðar fyrir samtök tengd UNICEF og var þeim rænt í Bagdad í byrjun þessa mánaðar. Óttast var um líf kvennanna og fylgdust Ítalir náið með framvindunni. Gleðin sem braust út á Ítalíu var mikil og dagblöð flytja fréttir af málinu á forsíðum með risafyrirsögnum og myndum. En það skyggir á gleðina að ítölsk stjórnvöld eru talin hafa greitt lausnargjald fyrir konurnar, allt að milljón dollara. Talsmenn stjórnvalda hafa ekki viljað svara fyrirspurnum fjölmiðla en formaður utanríkismálanefndar ítalska þingsins sagðist telja að lausnargjald hefði verið greitt. Hann viðurkenndi jafnframt að það væri hættulegt en sagði lausn kvennanna hafa skipt öllu. Leiðarar sumra dagblaða gagnrýna þessi vinnubrögð harðlega og segir í blaðinu Il Folio að ekki sé ástæða til að fagna. Lausnargjaldið verði notað til að fjármagna vopnakaup og baráttu gegn friði og lýðræði. Fréttaskýrendur segja ólíklegt að almennt viðhorf Ítala til stríðsins í Írak breytist í kjölfar þessa og telur fréttamaður CNN að meiri líkur séu á að efasemdir almennings aukist til muna. Tíu Ítölum hefur verið rænt í Írak undanfarið ár og tveir þeirra voru drepnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×