Erlent

Enn hækkar olían

Aldrei í sögu olíumarkaðarins í New York hefur verð á olíu verið jafn hátt, og sérfræðingar segja vonlítið að það lækki á næstunni. Verðið á olíufatinu komst í 49 dollara og 74 sent á olíumarkaði í New York og hefur aldrei verið hærra frá því að viðskipti hófust á þeim markaði árið 1983. Á evrópskum mörkuðum var hráolíuverðið lítið eitt lægra, eða 46 dollarar og 25 sent, en sérfræðingar virðast nú almennt vera á því að allar líkur séu á því að verðið haldist hátt um ókomna tíð. Þegar hámarki var síðast náð í ágúst töldu margir sérfræðingar að um tímabundna taugaveiklun væri að ræða og að olíubirgðir í heiminum myndu lagast innan tíðar. Taugaveiklun virðist enn á ný vera meginástæða þessa háa verðs, en sérfræðingar sem Reuters ræddi við segja engar umframbirgðir upp á að hlaupa auk þess sem framleiðslugeta helstu olíuríkja sé ekki meiri en svo að rétt duga fyrir núverandi neyslu. Neyslan hefur hins vegar stóraukist í ár, meira en í um aldarfjórðung. Og þegar óeirðir í Nígeríu og valdabarátta á helstu olíuframleiðslusvæðum, óöryggi í Írak og Sádi-Arabíu, hugsanlegt gjaldþrot rússneska olíurisans Yukos og samdráttur í framleiðslu þar, viðkvæmt ástand í Venesúela og skemmdir á olíuborpöllum á Mexíkóflóa í kjölfar fellibylja bætast við, segja sérfræðingar olíuverð í kringum fimmtíu dollara á fatið ekki óeðlilegt. Og þegar vetur gengur í garð á norðurhveli jarðar eru litlar líkur á að verðið lækki, þar sem olía er víða notuð til að kynda hús og fleiri aka til vinnu. Bloomberg- fréttastofan hefur eftir viðmælendum sínum, að taugatitringurinn á olíumarkaði sé nú slíkur, að hvað sem er geti valdið hækkun, og að spennan nú sé mun meiri en í olíukreppunni árið 1973.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×