Erlent

Blóðtaka hjá al-Qaeda

Einn æðsti leiðtogi al-Qaida samtakanna féll í tveggja klukkustunda skotbardaga í Pakistan í gær. Stjórnvöld þar segjast vera á hælunum á leiðtoga samtakanna. Amjad Hussain Farooqi er sagður einn helsti leiðtogi al-Qaeda í Pakistan og duglegur við að safna nýju liði. Hann hefur skipulagt fjölda hryðjuverka og ætlaði ekki að láta ná sér á lífi í gær. Hann var skotinn sex sinnum. Nokkrir al-Qaeda liðar til viðbótar voru handsamaðir og í dag hafa fleiri verið gómaðir. Perves Musharraf, forseti Pakistans, hefur orðið fyrir barðinu á al-Qaeda liðum, og raunar er talið að Farooqi hafi skipulagt við Musharraf á síðasta ári. Mussharraf segir að með þessu hafi einn helsta uppspretta hryðjuverka í landinu verið stöðvuð. Þá hafi einnig fleiri handtökur átt sér stað og allt muni þetta reynast mikil blóðtaka fyrir al-Qaeda samtökin. Óttast er að þeir al-Qaeda menn sem enn leika lausum hala hyggi á hefndarverk og því hafa erlend sendiráð, opinberar stofnanir og bænahús verið vöruð við. Talsmenn Bandaríkjahers, sem berst við talibana og al-Qaeda hinum megin landamæranna, í Afganistan, sögðu baráttuna ganga vel og vonast væri til að framhald yrði á aðgerðum af þessu tagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×