Menning

Með fornbíladellu í blóðinu

"Ég hef haft áhuga á fornbílum síðan ég man eftir mér. Ég ólst eiginlega upp í bílskúrnum hjá pabba sem var mikill bílaáhugamaður. Hann átti t.d. Citroën 1930 og Lanchester 1947 módelið. Þetta er því í blóðinu og af fjórum bræðrum erum við þrír með delluna," segir Árni Þorsteinsson fornbílaeigandi. Margir gætu haldið að það væri erfitt að fá varahluti í bíla sem var hætt að framleiða fyrir áratugum síðan. Sú er þó ekki raunin. "Við förum til dæmis nokkrir saman til Pennsylvaníu á hverju ári, á stærstu fornbílasýningu heims. Þar er hægt að kaupa bíla og varahluti, svo er líka hægt að panta úr vörulistum og á netinu. Í dag er aftur farið að framleiða varahluti í flesta þessara bíla svo að það er mjög auðvelt að fá það sem vantar," segir Árni. Kona Árna, Guðný Sigurðardóttir, hefur sama áhugamál. "Það er mjög gott að eiga konu sem skilur áhugamálið og tekur þátt í því. Hún klæðir til dæmis bílana að innan, saumar yfir sæti og hurðarspjöld. Hún tekur líka þátt í öllum ferðum." Þau hjónin eiga samtals fjóra bíla: Chevrolet Styleliner 52, Chevrolet Fleetmaster 48, Rambler Classic 65 og loks óuppgerðan Chevrolet 53. Árni og Guðný eru í Fornbílaklúbbi Íslands ásamt tæplega 600 öðrum meðlimum en konur eru að verða meira áberandi í klúbbnum en áður, bæði með mönnum sínum og líka sem bílaeigendur. "Klúbburinn kemur saman vikulega yfir vetrarmánuðina. Á sumrin eru svo mynda- og rabbkvöld auk margra ferða. Í sumar fórum við í 13 ferðir." En er ekki horft mikið á hann þegar hann ekur um götur bæjarins í nýbónuðum hálfrar aldar gömlum bíl? "Jú jú, fyrst fór maður hjá sér, en ég er eiginlega hættur að taka eftir því," segir Árni. "Það er gaman að sýna bílinn í kyrrstöðu en ekki eins gott þegar maður hægir á umferðinni af því að aðrir ökumenn eru svo uppteknir við að horfa á hann," segir Árni að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×