Innlent

Ný ríkisstjórn tekur við

Ný ríkisstjórn undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar tekur formlega við á ríkisráðsfundi sem hefst á Bessastöðum eftir klukkustund. Halldór, sem verður fimmtándi forsætisráðherra lýðveldisins, hefur stólaskipti við Davíð Oddsson en hann hefur gegnt embættinu lengst allra Íslendinga. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson munu skiptast á lyklum í stjórnarráðshúsinu að ríkisráðsfundi loknum. Davíð fær lyklavöld að utanríkisráðuneytinu og Halldór að stjórnarráðinu. Þar með lýkur valdatíð Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra. Hvaða skoðun sem menn hafa annars á stjórnunarstíl Davíðs má segja það þrekvirki að hafa verið við völd svo lengi. Hann tók við embætti forsætisráðherra 30. apríl árið 1991. Fyrir þann tíma var hann borgarstjóri í níu ár; var aðeins 34 ára þegar hann tók við þeim starfa árið 1982. Þeir sem hljóta kosningarétt á árinu voru því fimm ára þegar Davíð tók við stjórnartaumum í forsætisráðuneytinu og fæddust í borgarstjóratíð hans. Hann hefur stjórnað 960 ríkisstjórnarfundum og verið forsætisráðherra þremur árum og tveimur mánuðum lengur en Hermann Jónasson, sá sem næstlengst hefur setið. Davíð hefur þó ekki einungis sett Íslandsmet því það þarf að fara langt aftur í söguna til að finna sambærilega embættistíð forsætisráðherra á Norðurlöndum. Frá árinu 1991 hafa fimm forsætisráðherrar verið starfandi í Noregi, þrír í Danmörku og tveir í Svíþjóð. Í forsætisráðherratíð hans hafa þrír menn gegnt stöðu forseta Bandaríkjanna og tveir forsætisráðherrar verið starfandi í Bretlandi. Það eru helst evrópskar stórkanónur síðari tíma sem hafa eitthvað í Davíð í þessu tilliti, eins og Margrét Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, Charles De Gaulle Frakklandsforseti og Helmut Khol, kanslari Þýskalands, sem var við völd í sextán ár. Í dag verða það ekki einungis Davíð og Halldór sem skiptast á lyklum því Siv Friðleifsdóttir mun einnig afhenda Sigríði Önnu Þórðardóttur lyklavöld í umhverfisráðuneytinu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×