Erlent

Bardagar blossa upp á nýjan leik

Bardagar í Najaf eru hafnir af krafti á nýjan leik eftir að stríðandi fylkingum mistókst að ná samkomulagi um vopnahlé. Bandarískar hersveitir, studdar skriðdrekum, héldu aftur inn í miðbæ borgarinnar til að herja á vopnaða stuðningsmenn sjíaklerksins Muqtada al-Sadr. Víða mátti heyra sprengingar og skotbardaga þegar bardagar færðust úr einu hverfi í annað. Bardagarnir hófust á ný um það leyti sem rúmlega þúsund þjóðfundarfulltrúar komu saman í Bagdad. Eitt helsta verkefni þjóðfundarins er að velja hundrað manna ráð sem hefur eftirlit með störfum bráðabirgðastjórnarinnar fram yfir þingkosningar í janúar. Íraskir lögreglumenn umkringdu hótel í Najaf þar sem blaðamenn hafast við og fyrirskipuðu þeim að halda á brott þar sem ekki væri hægt að ábyrgjast öryggi þeirra þegar bardagar brytust út af fullum krafti. Blaðamennirnir töldu hins vegar að með þessu ætti að tryggja að fréttir af bardögum bærust ekki jafn greitt út og ella. Töldu þeir hótanir um að gera farsíma og myndavélar upptækar renna stoðum undir það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×