Menning

Kenndi af mikilli innlifun

"Mér dettur strax í hug tveir fyrrverandi kennarar mínir, annars vegar Jón Böðvarsson sem kenndi mér sögu í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hins vegar Rachel, leiklistakennari minn í San Diego í Kaliforníu þar sem ég var eitt sinn skiptinemi," segir Valgerður Matthíasdóttir, arkitekt og sjónvarpskona á Skjá einum, þegar hún er spurð út í eftirminnilegan kennara. "Fyrir mér eru ógleymanlegar kennslustundirnar hans Jóns Böðvarssonar. Hann hafði svo mikla ánægju af að kenna og lifði sig svo inn í það að hann hreif alla með þannig að allir hlustuðu á hann með athygli. Mér fannst ég meira að segja einu sinni sjá tár renna hjá honum, þvílík var innlifunin," segir hún. Þegar Valgerður var 17 ára gömul fór hún sem skiptinemi til San Diego í Kaliforníu og segir hún dvölina þar hafa verið ógleymanlega reynslu. "Þar hafði ég mjög skemmtilegan leiklistarkennara, hana Rachel en hún var flippaður, skemmtilegur og hress hippi og mikil listakona. Kennsluaðferðir hennar voru mjög nýstárlegar og allt öðruvísi en maður hafði vanist hér heima. Hún var náttúrulega að kenna okkur leiklist og fyrir vikið var allt miklu frjálslegra heldur en í hefðbundnu fagi. Hún fór til dæmis í ferðalag með bekkinn um Kaliforníu að skoða leikhús, sem mér fannst mér auðvitað mjög sérstakt og gaman," segir Valgerður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×