Innlent

114 húsbílar í hópferð

Á þriðja hundrað útlendinga á 114 húsbílum eru lagðir upp í þriggja vikna hópferð um landið og er stefnt að því að efna til svona ferða árlega. Fólk og bílar komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í gær og í gærkvöldi var safnast saman á knattspyrnuvellinum í Fellabæ þar sem fólkið gisti í bílum sínum. Það er að mestu leyti Norðurlandabúar og er ferðin skipulögð af samtökum húsbílaeigenda ytra. Sigrún Haraldsdóttir tók þátt í skipulagningunni og segir hún að áhöfnin í hverjum bíl ráði ferðatilhögun sinni, nema hvað safnast er saman á ákveðnum stöðum á kvöldin. Þannig fara sumir í jöklaferðir, siglingar eða hestaferðir utan við hópferðina. Þá mega aldrei nema fimm bílar aka saman í röð til að hafa ekki truflandi áhrif á umferðina. Undirtektir við þessa hugmynd voru vonum framar, að sögn Sigrúnar, sem sagði að skipuleggjendur hefðu orðið ánægðir með svona 25 bíla. Sigrún segir það misskilning að ferðamenn á húsbílum skiluðu engum tekjum til ferðaþjónustunnar því fólkið notfærði sér matsölustaði, sundlaugar, alla þjónustu við bíla og margir færu í dýrar aukaferðir. Í ljósi undirtektanna hefur þegar verið ákveðið að fara aðra ferð á næsta ári og er strax búið að skrá u.þ.b. 40 húsbíla í hana. Myndin er úr myndasafni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×