Innlent

Stjórn leitaraðgerða flutt

Ákveðið hefur verið að leita til þrautar á þeim svæðum þar sem björgunarsveitarmenn eru enn að störfrum, en halda síðan áfram eftirgennslan eftir öðrum leiðum. Þetta var ákveðið á fundi forsvarsmanna sýslumanns, björgunarsveita og ríkislögreglustjóra, sem hafa komið að leit að frönskum ferðahópi eftir óljóst neyðarkall á hálendingu í gær. Margt bendir til þesss að neyðarkallið hafi verið gabb. Verður áfram leitað á þeim svæðum sem þegar hafa verið skipulögð, og eftirgrennslan síðan haldið áfram eftir öðrum leiðum, en stjórn aðgerða hefur nú verið flutt til Ríkislögreglustjórans og Landsstjórnar björgunarsveita. Haft hefur verið samband við fjölda ferðaþjónustuaðila, auk margra sem á ferð eru um hálendið, en enginn, sem rætt hefur verið við, hefur orðið hópsins var. Farið hefur verið í skála, slóðar eknir, þekktir tjaldstaðir skoðaðir og aðrir líklegir staðir.Að leitinni hafa til þessa komið 25 björgunarsveitarbílar, 120 leitarmenn auk þyrlu Landhelgisgæslunnar. Leitarsvæðið færðist til vesturs, seint í gærkvöldi eftir að kortlagt hafði verið það svæði sem talið er að fjarskiptin hafi komið frá. Sú ákvörðun var byggð á upplýsingum um að kallið heyrðist vel í Reykjavík og ekki eingöngu hjá Ferðafélaginu. Það heyrðist líka í bílatalstöð við Þórisvatn og er þetta talið til marks um að kallið hafi farið um VHF-endurvarpa í Bláfjöllum. Björgunarsveitarmenn úr Árnessýslu bættust í leitarhópinn í gærkvöldi og leita nú í fjallaskálum á hálendinu upp af sýslunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×