Innlent

Engin ákvörðun enn tekin

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans fullyrða að ákvörðun um að rífa ekki Austurbæjarbíó hafi verið tekin fyrir rúmum mánuði. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður skipulagsnefndar, þverneitar því og segir enga ákvörðun hafa verið tekna. Hún var ósátt við þá ákvörðun forseta borgarstjórnar að nánast lýsa því yfir í fjölmiðlum í vikunni að Austurbæjarbíó yrði ekki rifið. Í átökum liðinna daga og vikna um örlög Austurbæjarbíós hefur Steinunn Valdís, haldið því fram að engin ákvörðun hafi enn verið tekin um framtíð hússins. Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans sem fréttastofa ræddi við í dag staðfesta hins vegar að meirihlutinn hafi ákveðið í síðasta mánuði að hyggilegast væri að hætta við að rífa húsið og eins og einn orðaði það þá væri það ekki þess virði pólitískt að halda málinu til streitu. Steinunn Valdís situr engu að síður fast við sinn keip. Það hafi ekki verið tekin nein formleg ákvörðun um niðurrif og að tillaga verði lögð fram um málið 11. ágúst. Forseti borgarstjórnar, Árni Þór Sigurðsson, lýsti því nánast yfir í Ríkisútvarpinu í byrjun vikunnar að bíóið yrði ekki rifið. Fréttastofa veit að Steinunn brást ókvæða við þessu útspili Árna sem tók þarna að margra mati fram fyrir hendurnar á Steinunni. Hún vill ekki lýsa skoðun sinni á þessu upphlaupi Árna í fjölmiðlum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×