Innlent

Karlmenn segja NEI

Karlmenn verða að standa saman allir sem einn í að koma í veg fyrir nauðganir, segir karlahópur Femínistafélagsins, sem stendur fyrir átaki um verslunarmannahelgina gegn nauðgunum. Átakið heitir „Karlmenn segja NEI við nauðgunum". Hópurinn hefur tvisvar áður staðið fyrir samskonar átaki. Sem fyrr er lögð áhersla á hlutverk karlmanna í baráttunni gegn nauðgunum og hvaða möguleika þeir hafi til að koma í veg fyrir nauðganir. Með átakinu vill karlahópurinn fá karla til að staldra við og velta fyrir sér hvað þeir geti gert til að koma í veg fyrir nauðganir. Nauðsynlegt sé fyrir karlmenn að sýna samábyrgð og taka afgerandi afstöðu gegn nauðgunum. Þó fæstir karlar nauðgi sé það staðreynd að langflestir þeirra sem nauðga eru karlar. Hópurinn verður á ferðinni á morgun við Umferðarmiðstöðina, flugstöðina í Reykjavík og í Þorlákshöfn, til að ræða við karla um eðli og alvarleika nauðgana, dreifa barmmerkjum og bæklingum með upplýsingum um nauðganir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×