Innlent

Hákon kom líkinu í sjó

Hákon Eydal hefur viðurkennt fyrir lögreglu að hafa komið líkinu af Sri Rahmawati, fyrrum eiginkonu sinni, í sjó samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Hann hefur ekki viðurkennt að hafa orðið Sri að bana en vísbending hans er fyrsta staðfesting þess að hún sé látin. Ábending frá Hákoni varð til þess að leitin að líki Sri Rahmawati beindist að ákveðnum stað og fékk lögreglan í Reykjavík aðstoð kafara úr sérsveit Ríkislögreglustjóra við leitina í gærkvöldi. Áður höfðu 130 björgunarsveitarmenn á 27 bílum tekið þátt í leitinni. Líkið af Sri Rahmawati hafði ekki fundist þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi. Það kann að gera lögreglu erfiðara fyrir við leit að líkinu að straumar kunna að hafa borið það af þeim stað sem Hákon kom því fyrir á. Fjölskylda Sri var upplýst um það í gær að Hákon hefði bent á hvar hann kom líkinu fyrir. "Við mun halda áfram leit meðan það er einhver von um að finna hana," sagði Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík. Hann sagði að það tæki tíma að vinna að rannsókn í jafnerfiðum og viðamiklum málum og þessu ef niðurstaða ætti að nást.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×