Innlent

Eigandi Austurbæjar ósáttur

Minni líkur eru nú en áður að leyfi verði gefið fyrir niðurrifi Austurbæjarbíós að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, formanni skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur. Aðspurð um ástæðuna fyrir viðhorfsbreytingar meirihluta borgarráðs í málinu sagði Steinunn að neikvæð viðbrögð við grenndarkynningu réðu þar miklu um. "Það var ekki búið að taka neina ákvörðun um það hvort leyfa ætti niðurrif eða ekki þegar málið fór í grenndarkynningu," segir Steinunn. "Ástæðan fyrir grenndarkynningu er einmitt að leita eftir viðbrögðum og að sjálfsögðu hafa þau áhrif á niðurstöðu málsins, annað væri ólýðræðislegt," segir hún. Árni Jóhannesson, framkvæmdastjóri Á.H.Á. bygginga, eigenda Austurbæjarbíós, sagði í samtali við Fréttablaðið að hann væri að sjálfsögðu ósáttur við þá niðurstöðu, ef svo yrði, að niðurrif hússins yrði ekki heimilað. Spurður um hvort hann væri að íhuga málaferli vegna hugsanlegs fjárhagslegs tjóns sem rekja má til þess að Reykjavíkurborg hafnaði umsókn fyrirtækisins um niðurrif hússins og byggingu nýrra íbúða og verslunarhúsnæðis sagði hann ekkert afráðið með það. "Ég er að hugsa næsta leik í stöðunni og er í viðræðum við borgina," sagði Árni, en vildi ekki fara nánar út í um hvað viðræðurnar snerust. Hann vinnur að því að útbúa skýrslu um málið þar sem varpað verður ljósi á öll atriði þess. Skýrslan verður tilbúin strax eftir helgi. "Verið er að vinna skipulag að öllum reitnum þar sem taka þarf tillit til margra annarra bygginga en Austurbæjarbíós. Tillaga um skipulag svæðisins verður lögð fram á fundi nefndarinnar 11. ágúst og mun ekki skýrast að fullu fyrr en þá hver örlög Austurbæjarbíós verða," segir Steinunn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×