Innlent

Ókeypis úttekt á eftirvögnum

Vátryggingafélag Íslands og Frumherji bjóða næstu daga ókeypis úttekt á eftirvögnum (fellihýsum, hjólhýsum tjaldvögnum og hestakerrum) til að fólk geti gengið úr skugga um að allur búnaður sé löglegur og í lagi áður en lagt er upp í ferðalag um verslunarmannahelgina. Skoðunarstöð Frumherja að Hesthálsi í Reykjavík annast úttekt eftirvagnanna, frá og með mánudegi 26. júlí til föstudags 30. júlí klukkan 8-20. Öllum stendur þessi þjónusta til boða fram að verslunarmannahelgi. Starfsmenn Frumherja mæla þyngd eftirvagns og kanna hvort viðkomandi bíll sé skráður með heimild til að draga vagninn. Þeir kanna spegla bílsins og bremsubúnað (þegar það á við), tengibúnað og ljósabúnað eftirvagnsins.Að skoðun lokinni fá ökumenn í hendur minnisblað með athugasemdum og geta gert viðeigandi ráðstafanir ef þörf krefur. Lögreglan fylgist sérstaklega með því næstu daga hvort bílar með fellihýsi, hjólhýsi eða tjaldvagna í eftirdragi séu með tilskilinn búnað, sem og eftirvagnarnir sjálfir. Í alvarlegum tilvikum kann fólk að fá fyrirmæli um að snúa við eða það verður jafnvel kyrrsett. Þeir sem aðstöðu hafa til geta hins vegar komið í veg fyrir slík óþægindi með því að nýta sér ókeypis skoðun VÍS og Frumherja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×