Innlent

Dregur úr byggingu einbýlishúsa

Verulega hefur dregið úr byggingu einbýlishúsa á Íslandi á síðari áratugum miðað við það sem áður hefur þekkst. Þess í stað hefur mesti vöxturinn verið í háhýsum með fleiri en sex íbúðir og er nú svo komið að ríflega en helmingur af nýju íbúðahúsnæði er í stóru fjölbýli. Þetta eru mikil viðbrigði því lengst af eftir stríð hefur um 40-50% af framboði nýrra íbúða verið einbýlishús. KB banki greinir frá þessu. Á árunum 2001-2003 voru 5.804 nýjar íbúðir fullgerðar hérlendis. Þar af voru 1.890 í einbýlishúsum eða tæpur þriðjungur en aftur á móti 3.200 eða 55% í stórum fjölbýlishúsum með fleiri en sex íbúðir. Er þetta í fyrsta skipti hérlendis sem framboð nýrra íbúða í stórum fjölbýlishúsum er meira en framboð á nýjum einbýlishúsum. Bygging einbýlishúsa náði hámarki á áttunda áratugnum en frá 1971-1980 voru 11.582 ný einbýlishús byggð á Íslandi eða 1.158 á ári. Samsvarandi tölur fyrir tíunda áratuginn eru aðeins 584 hús á ári eða helmingi færri. Jafnvel þó byggingariðnaður hafi tekið verulega við sér á síðustu þremur árum hefur aukningin ekki náð til einbýlishúsa en aðeins 630 einbýlishús hafa verið byggð á ári að meðaltali á árunum 2001-2003. Samdráttur í byggingu einbýlishúsa stafar líklega af nokkrum þáttum. Í fyrsta hefur lóðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað verulega sem hefur hvatt til byggingu fjölbýlis. Raunar er svo komið að lóðir fyrir ný einbýlishús er vart hægt að fá nema á ystu mörkum borgarinnar. Í öðru lagi má hér greina stærðarhagkvæmni í byggingum þar sem verktakafyrirtæki ná niður kostnaði með stórbyggingunum. Í þriðja lagi hefur það færst í vöxt að fjölbýlishús, sem staðsett eru miðsvæðis, teljist nú eftirsóknarverður kostur fyrir tekjuhærri hópa eða þá sem kjósa að minnka við sig með húsnæði eftir miðjan aldur. Það er af sem áður var að fólk bjó í einbýli allt fram á grafarbakkann. Ennfremur hefur fjölskyldustærð farið minnkandi og þörfin fyrir rými ekki eins aðkallandi og áður. Allt þetta hefur orðið til þess að íslenskur byggingariðnaður hefur sveigst í átt til byggingu fjölbýlishúsa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×