Erlent

Hunsa fyrirmæli Evrópusambands

Evrópusambandið hefur nú gefið Bretum sínu þriðju og síðustu aðvörun vegna aðgerða breskra tollayfirvalda sem sýna mikla hörku gagnvart þeim þegnum sínum sem kaupa áfengi og tóbak í öðrum Evrópusambandslöndum. Samkvæmt lögum sambandsins eru engar hömlur á verslun landa á milli að því gefnu að um einkaneyslu sé að ræða en yfirvöld í Bretlandi hafa ítrekað orðið uppvís að því að gera upptækt áfengi og tóbak sem þegnar þeirra versla mun ódýrara annars staðar. Ástæðan er einfaldlega sú að verð á áfengi og tóbaki er óvíða hærra en í Bretlandi og munar miklu á verði þar og í flestum öðrum ríkjum sambandsins. Breska stjórnin segir að svartamarkaðsbrask með þessar vörur sé vaxandi og því sé gengið harðar fram en ella en Evrópusambandið fellst ekki á þessi rök og er reiðubúið að senda málið fyrir dómstóla ef ekki er gerð bragarbót á. Bretar eru ekki einir um áhyggjur af tekjumissi vegna ásóknar í ódýrt vín og tóbak. Finnska stjórnin horfir ráðþrota á landa sína versla í Eistlandi og hefur sú verslun aukist hratt þrátt fyrir mikla skattalækkun finnskra stjórnvalda á þessum sömu vörum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×