Erlent

Samstaða um að hjálpa Írökum

Leiðtogar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins lögðu áherslu á að Atlantshafsbandalagið yrði við beiðni Íraksstjórnar um aðstoð við uppbyggingu íraskra öryggissveita. Þessu lýstu þeir yfir eftir fund sem þeir héldu í gær til að slétta yfir deilumál sín fyrir leiðtogafund Nató sem er að hefjast í Istanbúl í Tyrklandi. Niðurstaða leiðtogafundarins er túlkuð sem sigur fyrir George W. Bush Bandaríkjaforseta þar sem hann náði sínum helstu markmiðum. "Ég held að bitrar deilur um stríðið séu að baki," sagði Bush á blaðamannafundi og sagði Bandaríkin og Evrópusambandið sammála um að hjálpa íraskri alþýðu. Auk þess að hvetja Nató til að veita Írökum hernaðaraðstoð samþykktu fundarmenn að stefna að því að draga verulega úr erlendum skuldum Íraks, hvetja alþjóðastofnanir á borð við Heimsbankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að veita Írökum aðstoð, efla baráttuna gegn hryðjuverkum og virða ákvæði Genfarsáttmálans um meðferð stríðsfanga. Einnig var samþykkt að vinna að því að binda endi á tuttugu ára borgarastríð í Írak og koma á friði í Miðausturlöndum. Tilvísunin í Genfarsáttmálann er áminning um hvernig föngum hefur verið misþyrmt í Írak. "Þessir atburðir áttu sér því miður stað, og að sjálfsögðu vildum við að þeir hefðu ekki átt sér stað," sagði Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands. Á blaðamannafundi eftir viðræðurnar hvatti Bush Evrópusambandið til að hefja aðildarviðræður við Tyrki sem hann sagði hafa uppfyllt skilyrði fyrir inngöngu í sambandið. Tyrkir eru "stolt þjóð sem hefur á farsælan hátt blandað evrópskum einkennum við múslimskar hefðir," sagði Bush.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×