Erlent

Vill stærra hlutverk Nató

George W. Bush Bandaríkjaforseti vill að Atlantshafsbandalagið komi með öflugri hætti að öryggisstarfi í Írak en það hefur gert hingað til. Fimmtán af aðildarríkjum bandalagsins hafa þegar sent herlið til Íraks. "Við teljum að Atlantshafsbandalagið eigi að vera með í ráðum," sagði Bush á Sea Island undan ströndum Georgíufylkis þar sem hann er staddur vegna fundar átta stærstu iðnríkja heims. "Við munum vinna með vinum okkar í Atlantshafsbandalaginu til að tryggja að það haldi í það minnsta áfram því sem það er að gera núna og bæti vonandi einhverju við það," sagði hann. Orð sín lét Bandaríkjaforseti falla eftir að hafa snætt morgunverð með Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, þar sem þeir ræddu meðal annars samhljóða samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á Íraksályktun ríkjanna. Bush fór ekki út í hvaða hlutverk hann vildi að Nató tæki að sér en embættismenn segja að hann hafi sérstakan áhuga á að bandalagsþjóðir aðstoði við þjálfun írasks hers.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×