Erlent

Madrídarárásin var mitt verk

"Madrídarárásin var mitt verk og þeir sem létu lífið sem píslarvættir eru kærir vinir mínir," sagði Rabei Osman Ahmed í símtali sem ítalska lögreglan hleraði nokkrum dögum áður en hún handtók hann. Osman Ahmed, sem hefur verið kallaður Egyptinn Múhameð, er talinn geta verið höfuðpaur hryðjuverkaárásanna í Madríd 11. mars. Spænskir saksóknarar hafa farið þess á leit við rannsóknardómarann Juan del Olmo að hann óski eftir leyfi Ítala til að yfirheyra Osman Ahdmed. Spánverjar munu fara fram á að hann verði framseldur. Hann kemur einnig við sögu í rannsókn á því hvernig reynt hefur verið að fá múslima á Spáni til liðs við hryðjuverkasamtök. Lögregla hefur handtekið fjölda manns víða á norðanverðum Spáni í tengslum við stolið sprengiefni sem var notað í árásunum í Madríd. Af þeim fimmtán sem voru handteknir í Belgíu á þriðjudag verða fjórir ákærðir fyrir að undirbúa hryðjuverkaárásir en sjö hefur þegar verið sleppt. Yfirvöld segjast ekki vita hvert skotmark árásarinnar hafi verið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×