Erlent

Allir á brott innan fimmtán mánaða

Ísraelsstjórn mun greiða þeim landtökumönnum sem flytja sjálfviljugir frá Gaza bætur frá og með ágústmánuði. Þeir landnemar sem verða ekki horfnir á braut ári síðar verða reknir burt með valdi samkvæmt tímaáætlun sem hefur verið lögð fram um brotthvarf Ísraela frá landnemabyggðum á Gaza. Birting tímaáætlunarinnar gefur til kynna að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, ætli ekki að láta neitt koma í veg fyrir að landtökubyggðirnar á Gaza verði lagðar niður, og það fljótt. Binyamin Netanyahu fjármálaráðherra sagði ekki endanlega ákveðið hversu háar bætur þeir landtökumenn fengju sem hverfa á braut áður en lokafrestur til þess rennur út 14. ágúst á næsta ári. Ekki hefur heldur verið ákveðið hvar þeim verður komið fyrir. Palestínumenn hafa tekið áætluninni um brotthvarf með miklum fyrirvara og telja hana aðeins hugsaða til þess að tryggja stöðu Ísraela á Vesturbakkanum. Forystumenn Trúarlega þjóðarflokksins, sem situr í Ísraelsstjórn og er alfarið á móti því að gefa landtökubyggðir eftir, þykja eftir þetta líklegri en áður til að segja sig úr stjórninni. "Þetta er mjög alvarlegt og gengur þvert á það sem var samþykkt," sagði Nissan Slomiansky, þingmaður flokksins, og vísaði til samþykktar stjórnarinnar frá því um síðustu helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×