Erlent

Hvetja hjálparstofnanir til dáða

Íröksk yfirvöld hvetja hjálparstofnanir til að gefast ekki upp og hætta starfsemi í landinu þrátt fyrir ítrekuð mannrán og sprengjuárásir. Öfgahópur rændi yfirmanni alþjóðlegu hjálparstofnunarinnar Care International í Bagdad gær. Margaret Hassan var rænt á götu úti í gærmorgun og myndband af henni í höndum mannræningjanna var sýnt strax í gærdag á arabísku sjónvarpsstöðinni Al Jazeera. Hassan hefur búið í Írak í þrjátíu ár og starfað að þróunarmálum, hún er gift íröskum manni og með tvöfaldan ríkisborgararétt, breskan og íraskan. Hjálparsamtökin sem Hassan vann hjá, Care International, hefur í kjölfar ránsins á henni stöðvað starfsemi sína í landinu og íhugar að hætta öllu starfi. Yfirvöld í Írak segja að það sé einmitt það sem öfgahóparnir séu að reyna að gera með mannránum sínum og árásum og hvetja hjálparsamtök til að sitja sem fastast. Annars er það að frétta af Írak að gríðarleg bílasprengja sprakk í Bagdad nú undir kvöld og reykur steig hátt í loft upp. Í Fallujah sprungu líka sprengjur í dag og þar lést sex manna írösk fjölskylda í loftárás Bandaríkjahers. Fjölskyldan, hjón með tvö börn, höfðu flúið bardagana í borginni í síðustu viku en höfðu ákveðið að snúa aftur heim í gærkveldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×