Upp­gjörið: Þróttur - Stjarnan 4-2 | Klárar í ein­vígi við FH

Sindri Sverrisson skrifar
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir er fyrirliði Þróttara.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir er fyrirliði Þróttara. vísir/Diego

Þróttarar virðast tilbúnir í harða baráttu við FH um Evrópusæti í efri hluta Bestu deildar kvenna í fótbolta, miðað við 4-2 sigurinn gegn Stjörnunni í dag í síðustu umferðinni fyrir skiptingu deildarinnar.

Sigurinn breytir því ekki að Þróttur er í 3. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir FH, og nú er ljóst að það verður FH sem fær heimaleik í uppgjöri liðanna í lokaumferðunum.

Stjarnan var örugg um sæti í efri hlutanum fyrir leik í kvöld og hefur ekki að miklu að keppa, er með 25 stig og nú ellefu stigum á eftir Þrótti fyrir síðustu fimm umferðirnar.

Fyrri hálfleikurinn í Laugardalnum í dag var einn sá fjörugasti á þessari leiktíð. Frítt á völlinn í boði Hagkaupa og leikmenn vildu ekki láta sitt eftir liggja heldur buðu upp á markaveislu.

Eftir tuttugu mínútna leik átti Sæunn Björnsdóttir stórkostlega stungusendingu í gegnum miðja vörn Stjörnunnar á Sierra Lelii sem var alein gegn markverði og skoraði af yfirvegnum, í þriðja leiknum í röð.

Skoruðu beint upp úr miðju

Þróttarar náðu hins vegar ekki að snerta boltann aftur áður en Stjarnan hafði jafnað metin nokkrum sekúndum síðar, þegar Birna Jóhannsdóttir skoraði eftir góða sendingu Snædísar Maríu Jörundsdóttur út í teiginn.

Maður hefði haldið að þetta væri kjaftshögg fyrir heimakonur en þær svöruðu með tveimur mörkum á næstu tíu mínútum.

Sæunn kom Þrótti aftur yfir með viðstöðulausu skoti úr teignum, eftir frábæra fyrirgjöf Mistar Funadóttur af vinstri kantinum. Sæunn vann svo boltann úti við hornfána og kom honum á Þórdísi Evu Ágústsdóttur. Fyrirgjöf hennar fór beint á koll Unnar Dóru Bergsdóttur sem skoraði með góðum skalla.

Unnur Dóra með tvennu

Snædís María sá hins vegar til þess að Stjarnan væri enn á góðu lífi í hálfleik þegar hún minnkaði muninn í 3-2 á 38. mínútu, eftir undirbúning Úlfu Dísar Kreye Úlfarsdóttur.

Úlfa Dís slapp svo ein gegn markverði í upphafi seinni hálfleiks en var dæmd rangstæð. Það stóð mjög tæpt. Þess í stað jók Unnur Dóra muninn aftur í tvö mörk með marki af stuttu færi, eftir frábæra fyrirgjöf frá Sierru.

Leikurinn var áfram opinn og fjörugur en fleiri mörk voru ekki skoruð. Varamaðurinn Esther Rós Arnarsdóttir var þó óhemju nálægt því að minnka muninn í lokin en Jelena Tinna Kujundzic náði að verja skot hennar með skalla, nánast á marklínu.

Atvik leiksins

Rangstaðan sem vonandi var réttilega dæmd á Úlfu Dís þegar hún hefði getað jafnað metin í 3-3. Nokkrir lykilsentímetrar þarna sem skiptu sköpum fyrir þróun leiksins því skömmu síðar var Þróttur kominn í 4-2. Alls ekki hægt að segja samt að það hefði verið sanngjarnt að staðan yrði jöfn þarna.

Stjörnur og skúrkar

Mér fannst Sæunn Björnsdóttir standa upp úr í dag, af mörgum frábærum fram á við hjá Þrótti. Afskaplega vinnusöm en líka með frábæra stungusendingu í fyrsta markinu, fullkomið skot í öðru markinu og vann boltann á hættulegum stað í þriðja markinu.

Sierra heldur áfram að raða inn mörkum eftir endurkomu sína á völlinn eftir krossbandsslit og þær Mist Funadóttir voru alltaf að ógna á vinstri kantinum. Mist ætti að skoða bakgarðshlaup eftir ferilinn, hún hætti ekki að hlaupa fram og aftur völlinn og átti oft hættulegar fyrirgjafir. Unnur Dóra svo með tvö góð mörk, nákvæmlega það sem góður framherji gerir.

Snædís María og Úlfa Dís voru að sama skapi öflugar fram á við fyrir Stjörnuna og geta skammað liðsfélaga sína fyrir að það hafi ekki dugað í dag.

Skúrkarnir koma úr hópi varnarmanna eins og tölurnar bera með sér. Arna Dís og Anna María hleyptu Sierru aleinni í gegn í fyrsta marki Þróttar, Andrea Mist elti ekki inn í teig í marki tvö og Betsy Hassett lét góma sig og missti boltann í þriðja markinu. Að sama skapi mikið einbeitingarleysi hjá Þrótti að fá á sig mark strax eftir að hafa komist yfir, og Sóley María með slaka sendingu úr vörninni í seinna marki Stjörnunnar.

Dómarar

Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson lét manni líða vel með dómgæsluna allan tímann. Eitt gult spjald sem ég set smá spurningamerki við en annars voru helstu vafaatriðin varðandi sitt hvorn rangstöðudóminn á liðin sem ég ætla bara að reikna með að hafi báðir verið réttir.

Stemning og umgjörð

Frítt á völlinn, fríar pylsur og frábær leikur. Nokkur hópur fólks sem naut góðs af þessu en mér sýndist Þróttarar vera í miklum meirihluta í stúkunni sem er kannski skiljanlegt miðað við hve litlu er að keppa fyrir Stjörnukonur. Létt yfir fólki í góðu veðri og ekki verra að fá eina með öllu í blaðamannastúkuna.

Viðtöl

Sæunn: „Í fyrsta sinn sem Þróttur er að gera eitthvað svoleiðis“

„Við vorum mikið líkari okkur en við höfum verið í síðustu leikjum. Sérstaklega fundum við andann og spilamennskuna, alvöru tempó. Við erum búnar að vera að spila svona á æfingum og náðum loksins að sýna það á leikdegi,“ sagði Sæunn Björnsdóttir eftir sigurinn. Hún tók undir að fyrri hálfleikur hefði verið mikil skemmtun:

„Við vorum að gefa alls konar mörk og það var örugglega sérstaklega skemmtilegt að horfa á fyrri hálfleikinn. Við verðum samt að gera betur í þessum mörkum sem við fengum á okkur. Algjört einbeitingarleysi en vonandi skemmtilegt fyrir áhorfendur.“

Sjálf átti Sæunn stóran þátt í fyrstu þremur mörkum Þróttar:

„Fyrri hálfleikur var helvíti góður, þó ég segi sjálf frá, enda vorum við allar „on“ í dag og það hjálpar hverjum og einum leikmanni. Það skilar sér í góðri frammistöðu þegar allir gefa allt í þetta.“

Þróttur er nú í harðri baráttu við FH og ætlar sér að fá Evrópuleiki næsta sumar:

„Það er ótrúlega spennandi og skemmtilegt fyrir deildina að það sé alvöru samkeppni þarna efst, þó að fyrsta sætið sé kannski ekki alveg í augsýn sem stendur. Annað sætið er nálægt okkur og við höldum fast í að komast í Evrópukeppni. Það er ótrúlega spennandi og í fyrsta sinn sem Þróttur er að gera eitthvað svoleiðis. Við erum að einbeita okkur að ná eins mörgum stigum og við getum. Við erum að ná betri árangri en Þróttur hefur náð á síðustu árum og erum að keppast við það. Annað sætið er alltaf stefnan eins og staðan er núna.“

Jóhannes Karl: „Sanngjarn sigur hjá Þrótti“

Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Stjörnunnar, viðurkenndi að sigur Þróttar í dag hefði einfaldlega verið sanngjarn:

„Þróttararnir voru sterkir og gerðu okkur mjög erfitt fyrir. Þetta var mjög þétt og við náðum ekki alveg að leysa það í fyrri hálfleik. Kannski var 3-2 í hálfleik betri staða fyrir okkur en leikurinn sagði til um. En við getum skorað og skapað. Seinni hálfleikurinn fannst mér betri af okkar hálfu. Mér fannst við skapa betri og fleiri færi en við nýttum þau ekki og þær fengu sókn sem þær skoruðu úr. Heilt yfir sanngjarn sigur hjá Þrótti í dag,“ sagði Jóhannes Karl.

Hann hleypti góðu lífi í sóknarleik Stjörnunnar með skiptingum í seinni hálfleik og færin komu til að hleypa spennu í leikinn:

„Við fengum góð færi til að setja fleiri mörk en boltinn vildi ekki inn. En við þurfum að skoða aðeins varnarleikinn. Mér fannst við of passívar í öllum þessum mörkum, ekki setja nægilega mikla pressu og Þróttararnir eru það gott lið að ef það er ekki pressa á bolta á öllum stöðum á vellinum þá ertu sundurspilaður og þarft að sækja boltann í netið,“ sagði Jóhannes Karl.

Stjarnan siglir núna ansi lygnan sjó, laus við alla fallhættu en hefur kannski ekki að miklu að keppa á lokakaflanum, eða hvað?

„Það er að einhverju að keppa á meðan þú getur enn farið upp töfluna. Við erum jöfn Víkingi að stigum og Valsararnir tveimur stigum á undan, svo það er stutt upp í 4. sætið. Ég held það hljóti að vera metnaður í leikmannahópnum til að sækja það.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira