Íslenski boltinn

„Svekkjandi að við gefum þeim fjögur mörk“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sigurvin Ólafsson var svekktur með hversu auðveld mörk Þróttur fékk á sig í Kórnum í kvöld. 
Sigurvin Ólafsson var svekktur með hversu auðveld mörk Þróttur fékk á sig í Kórnum í kvöld.  Vísir/Diego

Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, segir stöðuna fína þrátt fyrir 4-3 tap í fyrri leik liðsins við HK í baráttu liðanna um að komast í úrslit umspils um sæti í efstu deild karla í fótbolta sem fram fór í Kórnum í kvöld. 

„Þetta var ekkert endanlega sú leikmynd sem ég bjóst við fyrir leikinn. Það var 0-0 í hálfleik en svo fór bara að hellirigna í seinni hálfleik og mörkunum rigndi inn. Við búum til sjö mörk í seinni hálfleiknum sem er svekkjandi,“ sagði Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, svekktur.

„Leikmenn geta alltaf gert mistök og ég get ekki álasað þeim fyrir það að mistakast inni á vellinum. En að lenda í því að öll fjögur mörkin koma eftir mistök af okkur hálfu er bagalegt. Það er hins vegar bara hálfleikur og staðan er 4-3. Við höfum fulla trú á að við munum klára þetta verkefni og fara áfram,“ sagði Sigurvin borubrattur.

„Strákarnir eiga hrós skilið fyrir að hafa ekki misst móðinn eftir að hafa lent í mótlæti. Það er margt sem á eftir að gerast í þessu einvígi og mikilvægt að missa ekki andann þrátt fyrir að á móti blási. Við hefðum viljað landa sigri eftir að hafa komist í 3-2 og það var lítið að frétta hjá þeim. Við klárum þetta bara í staðinn á heimavellinum okkar,“ sagði hann þar að auki.

„Mér fannst við spila þennan leik vel og ef við sleppum því að gefa þeim mörk í seinni leiknum þá fer þetta vel. Við endurheimtum sterka leikmenn í seinni leikinn sem er auðvitað jákvætt. Þeir sem komu inn í þennan leik stóðu sig vel og nú leggjumst við allir saman á eitt að ná í jákvæð úrslit í seinni leiknum,“ sagði Sigurvin um komandi viðureign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×