Fleiri fréttir

Beckham mun fara til LA Galaxy

Mikið hefur verið ritað um orð forseta Real Madrid í dag þegar hann sagði að félagið ætlaði að gera allt sem í þess valdi stæði til að halda leikmanninum áfram í herbúðum sínum. Talsmaður Beckham var fljótur að svara þessu í dag og sagði leikmanninn vera með samning við LA Galaxy og ekki kæmi annað til greina en að virða hann.

Slúðrið á Englandi í dag

Breska blaðið News of the World fullyrðir að Manchester United sé við það að ganga frá kaupum á argentínska framherjanum Carlos Tevez frá West Ham, en megi þar eiga von á harðri samkeppni frá ítölsku meisturunum í Inter Milan.

Forseti Real Madrid vill halda David Beckham

Sky sjónvarpsstöðin greindi frá því nú fyrir stundu að forseti Real Madrid, Ramon Calderon, hefði lýst því yfir að hann ætlaði að gera allt sem í hans valdi stæði til að halda David Beckham í röðum spænska félagsins áfram. Beckham hefur þegar samþykkt að ganga í raðir LA Galaxy í sumar. Frekari fréttir af málinu koma væntanlega síðar í dag.

Allardyce: Owen fer ef hann kærir sig um það

Sam Allardyce, stjóri Newcastle, segir að framherjinn Michael Owen geti farið frá Newcastle ef honum sýnist svo. "Michael er með ákvæði í samningi sínum sem leyfir honum að fara ef ákveðið hátt tilboð berst í hann og því get ég ekki haldið honum. Við erum að græða á svona ákvæði með Joey Barton og gætum því allt eins tapað á því með Michael," sagði Allardyce.

Wenger ætlar að standa við samning sinn

Arsene Wenger segist ætla að standa við samning sinn við Arsenal en hann gildir út næsta ár. Mikið hefur verið rætt um framtíð Wenger og Thierry Henry hjá félaginu undanfarið, en stjórinn segist ekki ætla að byrja að taka upp á því að svíkja samninga á gamalsaldri.

3-0 fyrir ÍA gegn KR - Kári skoraði eftir 15 sekúndur

KR-ingar eru komnir í mjög vond mál í leiknum gegn ÍA á Skaganum þar sem Kári Steinn Reynisson skoraði þriðja mark Skagamanna eftir aðeins 15 sekúndna leik í síðari hálfleik. Teitur Þórðarson gerði tvær breytingar á liði sínu í hálfleik en hans menn fengu blauta tusku í andlitið strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og því á brattann að sækja fyrir þá svarthvítu.

Skagamenn 2-0 yfir gegn KR í hálfleik

Staðan er ekki góð hjá botnliði KR þegar flautað hefur verið til leikhlés í viðureign liðsins við ÍA á Skaganum í fimmtu umferð Landsbankadeildarinnar. Skagamenn hafa yfir 2-0 í hálfleik og hafa nýtt færi sín vel gegn hugmyndasnauðum KR-ingum. Bjarni Guðjónsson og Helgi Pétur Magnússon skoruðu mörk ÍA. Skagamenn hafa átt 7 skot að marki KR og 2 á rammann en KR hefur átt 4 skot og ekker þeirra rataði á markið.

HK yfir gegn Fram í hálfleik

Nú er kominn hálfleikur í tveimur leikjum af þremur í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Nýliðar HK hafa yfir 1-0 gegn nýliðum Fram á Kópavogsvelli þar sem Jón Þorgrímur Stefánsson skoraði mark heimamanna. Markalaust er hjá FH og Fylki í Hafnarfirði og í sjónvarpsleiknum á Sýn hefur ÍA náði 1-0 forystu gegn KR með marki Bjarna Guðjónssonar. Sá leikur hófst klukkan 20.

ÍA - KR í beinni á Sýn í kvöld

Þrír leikir fara fram í fimmtu umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu í kvöld. FH tekur á móti Fylki í Hafnarfirði kl 19:15 og á sama tíma tekur HK á móti Fram. Klukkan 19:45 verður sjónvarpsstöðin Sýn svo með beina útsendingu frá leik ÍA og KR á Skaganum, en þessi fornfrægu lið eru í kjallara deildarinnar eftir fjórar umferðir.

Richard Keyes hraunaði yfir Færeyinga (Myndband)

Þáttastjórnandinn Richard Keyes á Sky Sports sjónvarpsstöðinni ætti að vera flestum áhugamönnum um enska boltann af góðu kunnur. Hann hljóp þó illa á sig þegar hann greindi frá leik Færeyinga og Skota á dögunum, þar sem hann úthúðaði Færeyingum óafvitandi í beinni útsendingu. Smelltu á hlekkinn í fréttinni til að sjá myndbandið.

Messi fetar aftur í fótspor Maradona - Nú með hönd Guðs

Argentínumaðurinn Leo Messi hjá Barcelona var í sviðsljósinu í kvöld þegar Barcelona og Espanyol skildu jöfn 2-2. Messi skoraði bæði mörk Barcelona í leiknum en það fyrra skoraði hann greinilega með höndinni. Hann hefur því á stuttum tíma hermt faglega eftir báðum mörkum landa síns Maradona frá því gegn Englendingum á HM árið 1986. Nú er bara spurning hvort kappinn talar um að þarna hafi hönd Guðs verið að verki.

Gríðarleg dramatík á Spáni

Dramatíkin var allsráðandi í næst síðustu umferðinni í spænska boltanum í kvöld. Real Madrid og Barcelona voru efst og jöfn í deildinni fyrir leiki kvöldsins, en eftir miklar sveiflur og dramatík er ljóst að það ræðst ekki fyrr en í lokaumferðinni hvort liðið hampar titlinum. Argentínumaðurinn Leo Messi stal enn og aftur senunni með Barcelona, en í þetta sinn á röngum forsendum.

Jafnt hjá Val og Keflavík

Valur og Keflavík skildu jöfn 2-2 í leik dagsins í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Gestirnir komust í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Þórarni Kristjánssyni og Baldri Sigurðssyni en Hafþór Ægir Vilhjálmsson skoraði fyrir heimamenn á 58. mínútu og það var svo Daníel Hjaltason sem jafnaði fyrir Valsmenn skömmu fyrir leikslok. Valsmenn eru í öðru sæti deildarinnar en Keflavík í þriðja.

Áttuðu sig ekki á smæð Danmerkur

Aganefnd Knattspyrnusambands Evrópu féll á landafræðiprófinu þegar hún ákvað að refsa danska knattspyrnusambandinu fyrir ólætin í leik Dana og Svía á Parken í Kaupmannahaöfn um síðustu helgi.

Aliadiere fer til Middlesbrough

Forráðamenn Middlesbrough hafa gefið það út að félagið hafi náð samkomulagi við Arsenal um kaup á franska framherjanum Jeremie Aliadiere. Hinn 24 ára gamli framherji hefur verið í herbúðum Arsenal lengur en flestir aðrir núverandi leikmenn liðsins, en hefur fá tækifæri fengið hjá Arsene Wenger.

Slúðrið á Englandi í dag

Teitur Þórðarson, þjálfari KR, er nefndur á nafn í ensku slúðurblöðunum í dag þar sem Daily Express fullyrðir að hann hafi áhuga á að taka við liði Motherwell í Skotlandi. Ekkert mun vera til í þessum skrifum blaðsins, en að venju er af nógu að taka í bresku pressunni þennan daginn.

Blikar harma söngva stuðningsmanna

Leiðinleg uppákoma átti sér stað á leik Víkings og Breiðabliks í Landsbankadeildinni í gærkvöldi. Stuðningsmenn Kópavogsliðsins sökuðu Garðar Hinriksson dómara um kynþáttafordóma í söngvum sínum eftir að hann gaf leikmanni Blika, Prince Rajcomar, gult spjald. Meistaraflokksráð Breiðabliks hefur gefið út yfirlýsingu þar sem þetta er harmað og beinir þeim tilmælum til stuðningsmanna að stilla sig í framtíðinni.

Ensku landsliðsmennirnir gjafmildir

Leikmenn enska knattspyrnulandsliðsins ætla að spila frítt fyrir þjóð sína fram að HM í Suður-Afríku árið 2010. Þeir hafa nú stofnað sjóð um laun sín sem notaður verður til að gefa til góðgerðamála og talið er að um ein milljón punda muni safnast fram að HM.

Hálfleikur í spænska

Nú er kominn hálfleikur í leikjum kvöldsins í spænska boltanum og heldur betur farið að draga til tíðinda. Topplið Real Madrid er að tapa 1-0 á útivelli fyrir Zaragoza og staðan í leik Barcelona og Espanyol er jöfn 1-1. Börsungar lentu undir í leiknum en Leo Messi jafnaði metin með því að blaka boltanum í netið með höndinni. Eiður Smári Guðjohnsen er í byrjunarliði Barcelona. Leikirnir eru sýndir beint á rásum Sýnar.

Eiður í byrjunarliði Barcelona

Eiður Smári Guðjohnsen er í byrjunarliði Barcelona sem tekur á móti grönnum sínum í Espanyol í næst síðustu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Leikurinn er sýndur beint á Sýn, en á sama tíma eigast við Zaragoza og Real Madrid í beinni á Sýn Extra. Liðin eru efst og jöfn í deildinni en Real getur í besta falli tryggt sér titilinn í dag ef úrslit verða liðinu í hag.

Fimmta umferð Landsbankadeildar hefst í kvöld

Einn leikur er á dagskrá í Landsbankadeild karla í kvöld þegar Víkingur og Breiðablik spila fyrsta leikinn í fimmtu umferðinni á Víkingsvelli klukkan 19:15. Þá verða fjórir leikir í Landsbankadeild kvenna þar sem ÍR mætir Breiðablik, Stjarnan tekur á móti Fjölni, Þór/KA tekur á móti Fylki og Valur fær Keflavík í heimsókn. Allir leikir hefjast klukkan 19:15.

Robben með nýjan samning á borðinu

Umboðsmaður og faðir hollenska knattspyrnumannsins Arjen Robben hjá Chelsea segir son sinn vera langt kominn með að undirrita nýjan fimm ára samning við Lundúnaliðið. Forráðamenn Real Madrid lýstu því yfir í gær að þeir ættu í viðræðum um kaup á leikmanninum og vöktu þær yfirlýsingar litla hrifningu í herbúðum Chelsea.

Boca Juniors mætir Gremio í úrslitum

Það verða Boca Juniors frá Argentínu og Gremio frá Brasilíu sem mætast í úrslitaleik Copa Liberdadores í Suður-Ameríku þetta árið eftir að Boca vann 3-0 sigur á Cucuta í síðari leik liðanna í undanúrslitum keppninnar í gærkvöld. Það var leikstjórnandinn knái Juan Roman Riquelme sem var maðurinn á bak við sigur Boca, sem fór áfram 4-3 samanlagt.

Beckham verður í hópnum hjá Real á morgun

Enski landsliðsmaðurinn David Beckham verður í leikmannahópi Real Madrid á morgun þegar liðið mætir Real Zaragoza í næstsíðustu umferð spænsku deildarinnar. Þar getur Real orðið spænskur meistari fari svo að erkifjendur þeirra í Barcelona tapi fyrir grönnum sínum í Espanyol.

Bolton kaupir Gavin McCann

Enska úrvalsdeildarfélagið Bolton gekk í dag frá kaupum á öðrum leikmanni Aston Villa á skömmum tíma þegar það fékk til sín miðjumanninn Gavin McCann fyrir óuppgefna upphæð. McCann er 29 ára gamall og fer til Bolton ásamt félaga sínum Jlloyd Samuel sem einnig hefur kosið að fara frá Villa.

Beckham varaður við stífum flugferðum

Sérfræðingur í flugfræðum hefur varað David Beckham við því að fljúga stíft milli Bandaríkjanna og Evrópu ef hann ætli sér að spila með enska landsliðinu áfram í undankeppni EM. Hann segir Beckham eiga á hættu að fá blóðtappa í lappirnar sem gæti orðið til þess að hann gæti ekki gengið á ný.

Henry spenntur yfir áhuga AC Milan

Framherjinn Thierry Henry hjá Arsenal hefur nú varpað meiri óvissu á framtíð sína hjá félaginu eftir að hann viðurkenndi að það hefði verið sér gríðarlegt áfall þegar stjórnarformaðurinn David Dein hætti á dögunum. Hann viðurkennir að meintur áhugi AC Milan á að fá hann í sínar raðir vekji forvitni sína.

Alonso framlengir við Liverpool til 2012

Spænski miðjumaðurinn Xabi Alonso hefur framlengt samning sinn við Liverpool til ársins 2012. Þessi 25 ára gamli leikmaður hafði verið orðaður við nokkur félög i sumar en hefur nú bundist liðinu til fimm ára. "Ég vissi af áhuga nokkurra liða en það var aldrei á dagskránni að fara héðan," sagði Alonso sem gekk í raðir Liverpool frá Sociedad árið 2004.

Svíum dæmdur 3-0 sigur

Knattspyrnusamband Evrópu hefur dæmt Svíum 3-0 sigur á Dönum í skrautlegum leik þjóðanna í undankeppni EM á dögunum. Leikurinn á Parken í Kaupmannahöfn var flautaður af undir lokin í stöðunni 3-3 þar sem ölvuð fótboltabulla hljóp inn á völlinn og réðist að dómaranum. Dómarinn flautaði af og dæmdi sænskum sigur og nú hefur UEFA staðfest þann grimma dóm yfir Dönum.

Enn eitt jafnteflið hjá Blikum

Einn leikur var á dagskrá í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld þar sem Víkingur og Breiðablik skildu jöfn 1-1 á Víkingsvelli. Magnús Páll Gunnarsson kom Blikum yfir en Valur Úlfarsson jafnaði fyrir heimamenn, sem voru sterkari aðilinn í leiknum. Víkingar hafa 8 stig í 2.-3. sæti deildarinnar en Blikar hafa 4 stig í 6. sætinu eftir 4 jafntefli í fyrstu 5 leikjunum í sumar.

Forráðamenn Real hafa áhyggjur af meiðslum Beckham

Forráðamenn Real Madrid hafa nú staðfest að David Beckham verði mjög tæpur fyrir mikilvægan leik liðsins gegn Real Zaragoza í spænsku deildinni um helgina eftir að hann meiddist á ökkla í landsleik Eista og Englendinga í gærkvöld. Beckham á nú góða möguleika á að vinna sinn fyrsta og eina titil með Real síðan hann gekk í raðir félagsins árið 2003.

Slúðrið á Englandi í dag

Miðjumaðurinn Florent Malouda hjá Lyon er heitasta nafnið í slúðrinu á Englandi í dag. Þessi sterki miðjumaður var kjörinn leikmaður ársins í Frakklandi fyrir skömmu og er nú orðaður við Liverpool, Chelsea og Arsenal. Leikmaðurinn sjálfur lýsti því yfir í dag að hann væri heitur fyrir því að ganga í raðir Liverpool.

Klose ætlar til Bayern

Þýski landsliðsframherjinn Miroslav Klose hjá Werder Bremen staðfesti endanlega í dag að hann ætlaði sér að ganga í raðir Bayern Munchen í sumar. Klose er 28 ára en á enn eitt ár eftir af samningi sínum við Bremen og það kemur til með að flækja málið nokkuð. "Ég hef ákveðið að spila fyrir Bayern á næstu leiktíð, en ég mun engu að síður leggja mig allan fram með Bremen ef ekkert verður af félagaskiptunum," sagði Klose.

Ribery semur við Bayern Munchen

Bayern Munchen festi í dag kaup á franska landsliðsmanninum Franck Ribery frá Marseille í Frakklandi fyrir 26 milljónir evra og hefur hann þegar undirritað fjögurra ára samning við þýska stórveldið. Því er svo haldið fram að fjórar milljónir evra muni bætast við kaupverðið ef Bayern nær að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Ribery sló í gegn með Frökkum á HM í fyrra og hefur verið mjög eftirsóttur - meðal annar af Arsenal. Hann er 24 ára gamall og á að baki 18 landsleiki.

Eto´o neitar að hafa rætt við Benitez

Framherjinn Samuel Eto´o hjá Barcelona neitar að hafa rætt við Rafa Benitez knattspyrnustjóra Liverpool um að ganga í raðir enska félagsins. Eto´o og umboðsmaður hans segja ekkert til í þeim orðrómi sem verið hefur á kreiki um að hann sé á leið til Liverpool eða AC Milan á Ítalíu.

Viduka gerði tveggja ára samning við Newcastle

Mark Viduka er formlega genginn í raðir Newcastle í ensku úrvalsdeildinni og nú síðdegis skrifaði hann undir tveggja ára samning við félagið eftir að hafa staðist læknisskoðun. Hann er 31 árs gamall og hefur verið einn fremsti markaskorari úrvalsdeildarinnar á síðustu árum. Hann mun keppa um sæti í framlínu Newcastle við þá Michael Owen, Shola Ameobi og Obafemi Martins.

Owen ánægður með markametið

Framherjinn Michael Owen hjá Newcastle og enska landsliðinu var að vonum kátur í gærkvöldi þegar hann skoraði þriðja mark Englendinga í 3-0 sigri liðsins á Eistum í undankeppni EM. Þetta var 23. mark hans fyrir landsliðið í alvöru landsleik og fór hann þar með einu marki fram úr markamaskínunni Gary Lineker.

Chelsea ætlar að klaga Real Madrid

Ummæli forseta Real Madrid í dag varðandi áhuga félagsins á Arjen Robben hafa vakið hörð viðbrögð forráðamanna Chelsea. Félagið hefur í hyggju að kæra Real Madrid til FIFA fyrir að hafa ólöglegt samband við samningsbundinn leikmann.

Eggert bjartsýnn á að halda Tevez

Eggert Magnússon, stjórnaformaður West Ham, segir félagið staðráðið í að reyna að halda argentínska framherjanum Carlos Tevez í sínum röðum og minnir á að hann sé samningsbundinn félaginu til þriggja ára.

Skorað fyrir gott málefni

Í næstu umferð Landsbankadeildar karla og kvenna verður skorað fyrir gott málefni. Landsbankinn heitir 30.000 kr. fyrir hvert mark sem leikmenn Landsbankadeildar karla og kvenna skora í 5. umferð karla og 4. umferð kvenna.

Viduka í læknisskoðun hjá Newcastle

Ástralski framherjinn Mark Viduka er nú í læknisskoðun hjá Newcastle þar sem hann mun að öllum líkindum skrifa undir samning fljótlega. Hann er með lausa samninga hjá Middlesbrough og hefur til þessa neitað að framlengja samning sinn við félagið.

Real Madrid í viðræðum við Arjen Robben

Forseti Real Madrid, Ramon Calderon, hefur staðfest að félagið sé í viðræðum við Chelsea um kaup á hollenska landsliðsmanninum Arjen Robben. Vængmaðurinn knái gekk í raðir Chelsea frá PSV Eindhoven fyrir 12 milljónir punda og sló í gegn, en erfið meiðsli hafa gert honum erfitt fyrir allar götur síðan.

Reina framlengir við Liverpool

Spænski markvörðurinn Jose Manuel Reina hefur skrifað undir nýjan samning við Liverpool sem gildir til ársins 2012. Reina er 24 ára gamall og hefur átt fast sæti í liðinu undanfarna mánuði. Hann gekk til liðs við rauða herinn árið 2005 frá Villarreal á Spáni og hefur leikið sex leiki fyrir spænska landsliðið þar sem hann er varamaður Iker Casillas hjá Real Madrid.

Myndband af skrípamarki Svía í kvöld

Fimmta mark Svía gegn Íslendingum á Råsunda leikvanginum í kvöld var í meira lagi slysalegt og ekki á hverjum degi sem svona klúður sést í landsleik. Í myndbandinu sem fylgir fréttinni má sjá markið sem segja má að hafi kórónað niðurlægingu íslenska liðsins í lýsingu Harðar Magnússonar á Sýn.

Allbäck hló að skrípamarkinu

Framherjinn Marcus Allbäck hjá sænska landsliðinu gat ekki annað en hlegið þegar sænsk sjónvarpsstöð spurði hann út í síðara mark hans gegn Íslendingum í kvöld. Boltinn barst þá til hans í vítateignum þar sem íslensku varnarmennirnir horfðu á hann skora því þeir héldu að dómarinn hefði verið búinn að dæma aukaspyrnu.

Sjá næstu 50 fréttir