Fleiri fréttir

Sendiráð Íslands í Mapútó lék á reiðiskjálfi

Sendiráð Íslands og skrifstofa Þróunarsamvinnustofnun Íslands léku á reiðiskjálfi í marga klukkutíma vegna sprenginga í Mapútó, höfuðborginni í Mósambik í gær. Fjöldi íbúa hefur flúið heimili sín í dag af ótta við frekari sprengingar. Vopnabúr hersins sprakk í loft upp í einu úthverfa borgarinnar í gær og 80 fórust. Hundruð íbúa liggja slasaðir á sjúkrahúsum.

Styrktarreikningur vegna banaslyss

Styrktarreikningur hefur verið stofnaður fyrir fjölskyldu Lísu Skaftadóttur sem lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi í fyrradag. Reikningurinn er á nafni Ragnars Þórs, eiginmanns Lísu. Hann er númer 0152-05-267600, kt. 111161-3649. Lísa lét eftir sig eiginmann og fimm börn. Þau eru fjögurra og átta ára, tvíburar á fermingaraldri og 25 ára. Tvíburarnir fermast 5. apríl næstkomandi.

Dagvistarrýmum fjölgað um 75

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fjölga davistar-og hvíldarrýmum fyrir aldraða á næstu mánuðum. Alls verður 370 milljónum króna varið til verkefnisins. Því er ætlað að styrkja búsetu aldraðra á eigin heimilum. Dagvistarrýmum verður fjölgað um 75, en fyrir eru þau um 700 á landinu öllu.

Braut glas á andliti konu

Karlmaður á fertugsaldri var í dag dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að brjóta glerglas á andliti konu. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi líkamsárásina sérlega hættulega. Við höggið brotnaði úr fimm tönnum konunnar. Líkamsárásin átti sér stað á veitingastað í miðborginni í janúar á síðasta ári. Í vitnisburði kemur fram að maðurinn hafi reiðst þegar bjór skvettist á hann.

Varað við vatnsskemmdum á vegum í Borgarfirði

Vegagerðin varar við vatnsskemdum á hringveginum neðan við Svignaskarð í Borgarfirði og sömuleiðis í uppsveitum Borgarfjarðar. Skemmdirnar má rekja til vatnavaxta í umhleypingum síðustu daga og er viðgerð á vegarköflunum að hefjast og vegfarendur beðnir um að sýna aðgát og tillitsemi.

Heiðmerkurkæru NÍ vísað frá

Úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál hefur vísað frá kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna þeirra ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur að veita framkvæmdaleyfi til lagningar vatnsveitu frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar.

Skátamót með SMS ívafi

Um helgina verður útilífshelgi skátaflokka í Heiðmörk. Mótið er sérstakt að því leiti að það er haldið innan borgarmakanna og er skipulagt af fólki á aldrinum 18-20 ára. SMS dagbók verður haldið úti á heimasíðu mótsins sem hluti af þrautum og verkefnum þátttakendanna.

Vorhátíð og sumarskráning KFUM-og K

Vorhátíð KFUM og KFUK verður haldin á morgun í höfuðstöðvum félaganna að Holtavegi. Þá hefst líka skráning fyrir sumarbúðir. Í fyrra tóku rúmlega þrjú þúsund börn þátt í sumarstarfinu, en það er 30 prósent á tveimur árum. Vinsælustu flokkarnir fyllast á fyrstu klukkutímunum, segir í tilkynningu frá KFUM og KFUK. Búist er við að met verði slegið í sumarbúnaðaskráningu.

Mengun vegna brennisteinsvetnis ekki yfir heilsuverndarmörkum

Brennisteinsvetnismengun sem borist hefur frá Hellisheiðarvirkjun til borgarinnar hefur ekki farið yfir heilsuverndarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá því að virkjunin var formlega gangsett eftir því mælingar umhverfissviðs borgarinnar og Umhverfisstofnunar sýna.

Lausamunir og þakefni á fleygiferð

Þakefni fauk í heilu lagi af fjórum raðhúsum á Akureyri upp úr miðnætti. Það hafnaði inni í garði við næsta hús og á bílastæði, þar sem að minnsta kosti einn bíll skemmdist. Björgunarsveitarmönnum tókst með snarræði að koma í veg fyrir að samskonar þakklæðning fyki af fjórum raðhúsum til viðbótar.

Halli á SÁÁ

Tæplega hundrað milljóna króna halli var á rekstri SÁÁ á síðasta ári. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, treystir því að stjórnvöld bregðist við og hefur enga trú á því að ríkið ætli að setja SÁÁ á hausinn.

Tekur út þjónustugjöld hér og annars staðar á Norðurlöndum

Alþýðusamband Íslands og Samtök fjármálafyrirtækja hafa ákveðið að efna til samstarfs um samanburðarúttekt á þjónustugjöldum banka og sparisjóða annars staðar á Norðurlöndum. Eftir því sem segir á vef ASÍ hafa samtökin fengið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að sjá um verkefnið.

Stofna starfshóp til að fara yfir fjármögnun Sundabrautar

Í morgun var ákveðið að setja á fót starfshóp með fulltrúum fjármála- og samgönguráðuneytis og Faxaflóahafna til að fara yfir hugmyndir Faxaflóahafna um fjármögnun Sundabrautar. Forsætisráðherra segir mikilvægt að hægt verði að flýta lagningu brautarinnar og stjórnarformaður Faxaflóahafna telur að Sundabraut geti verið tilbúin innan þriggja til fimm ára.

Íbúar fá að snúa til síns heima í Bolungarvík

Hættuástandi við Traðarland og Dísarland í Bolungarvík vegna hugsanlegra snjóflóða hefur verið aflétt en húsin voru rýmd í gær vegna þess. Eftir því sem segir í frétt á Bæjarins besta hefur umferðartakmörkunum á norðanverðum Vestfjörðum einnig verið aflétt og umferð við hesthúsin í Hnífsdal og Bolungarvík er heimil án takmarkana.

Fagna aukaframlagi ríkisins til sveitarfélaga

Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar tímabundnu aukaframlagi ríkisstjórnarinnar í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Viljayfirlýsing var undirrituð í gær af aðilunum. Hún kveður á um tvöföldun á framlagi ríkissjóðs í sjóðinn næstu tvö ár. Framlagið var 700 milljónir en verður 1400 milljónir. Markmiðið er að jafna aðstöðumun sveitarfélaganna.

Víða vatnavextir vegna hlýinda

Víða eru talsverðir vatnavextir vegna hlýinda og rigningar en vatnsflaumur hefur þó ekki valdið tjóni, svo vitað sé. Spáð er allt að níu stiga hita í dag og að hiti verði um sex stig um helgina þannig að ár og lækir gætu bólgnað.

Hætta við að lögsækja Dani

Evrópusambandið hefur ákveðið að hætta við lögsókn gegn stjórnvöldum í Danmörku vegna löggjafar sem takmarkar transfitusýrur í mat. Samkvæmt lögunum mega matvæli seld í Danmörku ekki innihalda meira en 2g af transfitusýrum í hverjum 100g. Það er tæplega helmingur þess magns sem Íslendingar borða af fitusýrum á dag samkvæmt könnun Manneldisráðs. Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna.

Varað við óveðri á norðanverðu Snæfellsnesi

Það er mjög hvasst víða um land og tæplega ferðaveður. Sérstaklega er varað við óveðri á Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi en einnig á Vopnafjarðarheiði. Þá er viðbúið að það séu slæmar hviður norðan í Hafnarfjallinu en þar er ekki vindmælir.

Varað við stormi víða um land

Veðurstofa Íslands varar við stormi víða um land í kvöld og fram á nótt. Sunnanlands og vestantil verður suðlæg átt, 10-18 m/s og súld, annars þurrt að kalla. Hiti verður 2 til 8 stig. Suðaustan 18-25 í kvöld með mikilli rigningu um landið vestanvert, og síðar einnig suðaustantil. Úrkomulítið verður norðaustan- og austanlands. Suðvestan 8-15 á morgun með skúrum eða éljum um landið vestanvert, rigningu suðaustanlands, en þurrt á Norðausturlandi. Kólnar heldur.

Ölvun og hraðakstur helsti valdur alvarlegra slysa

Ölvun og hraðakstur skýra meirihluta banaslysa á síðasta ári, en slík slys hafa ekki verið fleiri síðan 1977. Þetta kom fram við kynningu á skýrslu Umferðarstofu í morgun. Flest slys og óhöpp í umferðinni verða síðdegis á föstudögum. Sem fyrr eru yngstu ökumennirnir valdir að flestum slysum.

Ráðherrar funda um Sundabraut á vegum Faxaflóahafna

Stjórn Faxaflóahafna fundar á morgun með forsætisráðherra, viðskiptaráðherra og samgönguráðherra um áhuga hafnaryfirvalda á því að taka að sér framkvæmd Sundabrautar. Kostnaðurinn getur verið á bilinu tuttugu til tuttugu og tveir milljarðar króna og yrði þetta langstærsta samgöngumannvirkið í einkaframkvæmd til þessa. Bæði forsætis- og samgönguráðherra fagna frumkvæðinu og líst vel á þessi áform.

Samfylkingin vill fella niður innflutningsvernd á landbúnaðarvörur

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem vill ganga skrefi lengra til að lækka matarverð hér á landi með því að fella niður innflutningsvernd á landbúnaðarvörur. Allir flokkar, nema Sjálfstæðisflokkur, eru hins vegar á móti sölu léttvíns í matvöruverslunum. Skiptar skoðanir eru um málið innan Samfylkingar.

Féll niður í lest í Grindavík

Nítján ára piltur slapp ótrúlega vel þegar hann féll niður í lest um borð í fiskiskipi í Grindavíkurhöfn í dag. Hjálmur sem hann hafði á höfði er talinn hafa bjargað miklu. Pilturinn var fluttur í sjúkrabíl á slysadeild Borgarspítalans og reyndist handleggsbrotinn.

Óvenju góð aflabrögð um land allt

Mikil og góð aflabrögð eru nú nánast allt í kringum landið. Skipstjórar á Suðurnesjum segjast aldrei hafa lent í öðru eins fiskeríi og þorskurinn sé vænni en sést hafi í manna minnum. Þeir segja skilyrði í hafinu gefa tilefni til miklu meiri veiða og hvetja fiskifræðinga til að koma út á sjó og sjá þetta með eigin augum.

Akureyrarsjónvarp um land allt

Sjónvarpsstöðin N4, sem sent hefur út frá Akureyri undanfarin ár, hyggst hefja útsendingar á landsvísu á næstu vikum. Stjórnarformaður N4 segir sjónvarpsstöðina þá einu utan höfuðborgarsvæðisins sem haldi úti reglulegum fréttum á virkum dögum.

Eldur í bensínstöð

Rétt fyrir sex í kvöld kviknaði í þaki söluskála Olís á Reyðarfirði. Slökkvilið Fjarðarbyggðar kom fljótt á staðinn og slökkti eldinn. Iðnaðarmenn voru að klæða þak hússins þegar eldurinn blossaði upp. Litlar skemmdir urðu vegna eldsins en viðbúið er að einhverjar skemmdir hafi orðið vegna reyks og vatns.

Sýknaður af ákæru um utanvegaakstur í gullleit

Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Austurlands og sýknaði mann af ákæru um að hafa ekið utan vegar á Skeiðarársandi og valdið skemmdum. Í málinu var deilt um hvort sú leið sem maðurinn ók umrætt sinn teldist vegur í skilningi laga.

Sýknaði mann af þjófnaði vegna vankanta á skýrslutöku

Hæstiréttur sýknaði í dag karlmann af ákæru um að hafa brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum í félagi við konu og haft þaðan á brott peninga, hitakönnu og matvæli. Maðurinn neitaði sakargiftum fyrir dómi og bar við minnisleysi.

Eins árs fangelsi fyrir árás með stálkylfu

Rúmlega fertugur karlmaður var í Hæstarétti í dag dæmdur til eins árs fangelsisvistar fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með stálkylfu. Manninum hafði orðið sundurorða við fórnarlambið.

Lést í bílslysi við Kotströnd í gær

Konan sem lést í bílslysi á Suðurlandsvegi við Kotströnd í gær hét Lísa Skaftadóttir til heimilis að Engjavegi 32 á Selfossi. Lísa var 43 ára, fædd 17. janúar 1964. Hún lætur eftir sig eiginmann, fimm börn og eitt barnabarn.

Heimskautaréttur verður kenndur við HA

Undirritaður var samningur um að hefja meistaranám í heimskautarétti (polar law) við Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri í dag. Dr. Guðmundur Alfreðsson, prófessor, mun veita náminu forstöðu.

Enn snjóflóðahætta á Vestfjörðum

Vegagerðin varar við hvassviðri á Snæfellsnesi og á Holtavörðuheiði en segir aðalleiðir á á Suður- og Vesturlandi víðast auðar. Þá varar Vegagerðin við snjóflóðahættu í Óshlíð og eins milli Ísafjarðar og Súðavíkur.

Háskólinn í Reykjavík á heimsmælikvarða

Aðstaða nemenda og starfsfólks Háskólans í Reykjavík verður á heimsmælikvarða þegar nýbyggingar skólans í Vatnsmýri verða teknar í notkun. Í dag undirritaði Háskólinn samning við Eignarhaldsfélagið Fasteign um byggingar skólans. Þær munu rísa við Hlíðarfót ofan við Nauthólsvík og verða samtals 34 þúsund fermetrar.

Hyggjast styrkja sjóvarnagarða í Vesturbænum

Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar undirbýr að styrkja sjóvarnagarða við Ánanaust og Eiðisgranda í vesturbæ Reykjavíkur vegna þess að sjór hefur þar ítrekað gengið á land.

Ökufantur lofaði bót og betrun

Hálffertugur karlmaður var stöðvaður á Reykjanesbraut í gær eftir að hafa ekið langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Í samtali við lögreglumenn sagðist maðurinn skammast sín.Maðurinn hefur margsinnis verið tekinn fyrir hraðakstur. En hann lofaði bót og betrun varðandi aksturslag.

Vill vinnuverndarráð í stað stjórnar Vinnueftirlitsins

Ríkisendurskoðun vill að stjórn Vinnueftirlits ríkisins verði lögð niður og í stað hennar komi sérstakt vinnuverndarráð sem skipað verði fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. Í úttekt Ríkisendurskoðunar á Vinnueftirlitinu segir að stjórn Vinnueftirlitsins hafi ekki náð að laga sig að breyttu hlutverki sínu sem ráðgefandi stjórn og hafi það torveldað samskipti stofnunar og félagsmálaráðuneytis.

Óvissuferð með júmbó þotu

Í fyrramálið fara 550 starfsmenn Eimskips og dótturfélaga þess í óvissuferð með breiðþotu Atlanta flugfélagsins. Mikil spenna ríkir meðal starfsfólksins um hver áfangastaðurinn verður segir í tilkynningu frá félaginu. Flogið verður á Boeing 747-300 vél Atlanta. En flugfélagið er eitt af dótturfyrirtækjum félagsins.

Sinfónía Norðurlands gerir tímamótasamning

Nýr samningur á milli Akureyrarbæjar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands var undirritaður í dag. Samningurinn tekur til starfsemi hljómsveitarinnar næstu þrjú árin. Með honum er tryggð áframhaldandi starfsemi hljómsveitarinnar. Framlög hækka um samtals 10,5 m.kr. á samningstímanum.

Umhverfismál, hagstjórn og nýsköpun hjá Íslandshreyfingunni

Umhverfismál, bætt hagstjórn, betri kjör aldraðra og öryrkja og nýsköpun og jöfnuður eru þau mál sem nýr stjórnmálaflokkur, Íslandshreyfingin - lifandi land leggur áherslu á. Flokkurinn kynnti stefnu sína í dag í Þjóðmenningarhúsinu

Lögregluhundur fann fíkniefni í bíl

Karlmaður um tvítugt var handtekinn í austuhluta Reykjavíkur í gærkvöldi. Lögregla fann tvö grömm af ætluðu amfetamíni í fórum hans. Í framhaldinu leituðu var leitað í bíl mannsins. Lögregluhundur fann þá um 30 grömm af sama efni sem falið hafði verið í bifreiðinni. Á heimili mannsins fundust einnig tæki og áhöld til neyslu og dreifingar á fíkniefnum.

Afmælistónleikar kvennakórs Kópavogs

Kvennakór Kópavogs heldur afmælistónleika í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 25. mars. Gestir á tónleikunum eru Regína Ósk og Englakórinn, undir stjórn Natalíu Chow Hewlett. Í byrjun apríl leggst kórinn síðan í víking til Búdapest og tekur þar þátt í kórakeppni sem ber heitið Musica Mundi. Stofnandi kórsins er Natalia Chow Hewlett og undirleikari frá upphafi er Julian Hewlett.

Sjá næstu 50 fréttir